Umfjöllun og viðtöl: ÍBV - Víkingur 1-1 | Eyjamenn björguðu stigi undir lokin

Einar Kárason skrifar
vísir/bára

Það var logn og blíðviðri í Vestmannaeyjum í dag þegar ÍBV tók á móti Víkingum frá Reykjavík. Bæði lið enn án sigurs og því til mikils að vinna.

Heimamenn voru sterkari aðilinn framan af leik og fengu fín tækifæri til að koma boltanum í netið en án árangurs. Þórður Ingason, markvörður Víkinga, varði nokkrum sinnum ágætlega en var nálægt því að verða skúrkurinn þegar hann fór í óþarfa úthlaup en var heppinn að skalli Víðis Þorvarðarsonar fór rétt framhjá markinu. Það var ekki fyrr en eftir um hálftíma leik að Víkingar fóru að láta til sín taka. Ágúst Hlynsson fékk þeirra besta tækifæri í fyrri hálfleik eftir sendingu Guðmundar Andra Tryggvasonar en skot Ágústs laust og beint á Halldór Pál Geirsson í marki Eyjamanna.

Meira jafnræði var með liðunum í síðari hálfleiknum og skiptust liðin á að sækja en þó án þess að skapa nein alvöru dauðafæri. Þegar tæpar 20 mínútur voru eftir af leiknum dró til tíðinda. Víkingar sóttu þá upp hægri kantinn og sendu boltann inn í teig, ætlaðan Guðmundi Andra á fjærstönginni. Felix Örn Friðriksson, varnarmaður ÍBV, reif þá Guðmund Andra niður í jörðina og vítaspyrna umsvifalaust dæmd. Felix Örn fékk að líta rauða spjaldið fyrir brotið og Eyjamenn tíu inni á vellinum. Varamaðurinn Rick Ten Voorde steig á punktinn og sendi Halldór Pál í vitlaust horn og Víkingar komnir yfir og manni fleiri. ÍBV gerðu þá breytingar á liði sínu og ætluðu sér að gera hvað sem er til að fá eitthvað úr leiknum.

Það var þó afar lítið sem gerðist þangað til komið var í uppbótartíma. Breki Ómarsson, sem hafði komið inn á sem varamaður í síðari hálfleik fékk þá boltann úti á hægri kanti og sendi hnitmiðaða fyrirgjöf beint á ennið á Jonathan Glenn, framherja ÍBV, sem þakkaði fyrir með því að stanga boltann í netið, óverjandi fyrir Þórð í markinu. Víkingar voru ósáttir við jöfnunarmarkið en þeir töldu að brotið hefði verið á Nikolaj Hansen í aðdraganda þess. Þetta reyndist það síðasta markverða sem gerðist í leiknum og honum lauk því með jafntefli sem teljast frekar slæm heldur en góð úrslit fyrir bæði lið.

Pedro Hipolíto vísir/bára

Pedro: Áttum skilið þrjú stig
„Við vildum 3 stig og þegar ég horfi á leikinn fannst mér við eiga skilið 3 stig,” sagði Pedro Hipolito, þjálfari ÍBV, eftir leik. „Við byrjuðum leikinn betur en Víkingar og í fyrri hálfleik fannst mér við geta skorað eitt eða tvö mörk. Seinni hálfleikurinn var jafnari en þeir eru ekki að skapa neitt. Svo fá þeir víti eftir mistök að okkar hálfu. Rautt spjald og mark. Viðbrögð strákanna voru góð og sýndu vilja til að berjast.”

„Ég er ekki ánægður. Strákarnir eru ekki ánægðir en þeir eiga alla mína virðingu. Við erum að vinna vel. Þessir strákar eru sterkir karakterar. Viðbrögð þeirra voru frábær og áttu markið skilið. Þetta stig er ekki gott en það sem við fáum.”

Eyjamenn spiluðu manni færri í tæpar 20 mínútur og lentu undir þegar Felix Örn Friðriksson braut af sér inni í teig og var sendur af velli en Pedro vissi að liðið sitt myndi ekki hætta.

„Þeir hættu aldrei að berjast. Þeir hættu aldrei að reyna og sýndu trú. Þeir vildu vinna. Þessir strákar hafa stórt hjarta og það kemur að því að við náum í 3 stig. Þegar þú sérð þessi viðbrögð og hugrekki er ég í engum vafa.”

„Loksins, loksins (að við náum marki frá framherja úr opnum leik). Þeir hafa fengið færin og liðið hefur fengið færi. Stundum er þetta bara svona. Cristiano Ronaldo er besti framherji í heimi og stundum skorar hann ekki í 5-6 leikjum og allir halda að hann sé búinn. Glenn skorar í dag og vonandi aftur í næstu viku.”

Eftir 5 leiki hafa Eyjamenn einungis fengið 2 stig og eru án sigurs en Pedro vill meina að engin örvænting og stress sé í mannskapnum. „Ég hef unnið við atvinnuknattspyrnu í 24 ár. Ég hef fulla trú á því sem við erum að gera. Við vitum hver vandamál okkar eru en það eru góðir hlutir að gerast. Ég hef upplifað mörg slæm augnablik og ég hef upplifað mörg góð augnablik. Örvænting er fyrir fólkið sem þekkir ekki okkar vinnu og skilur ekki hvað er í gangi,” sagði Pedro að lokum.

Arnar Gunnlaugsson vísir/bára

Arnarn:
Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkinga, var ósáttur í leikslok. „Mín fyrstu viðbrögð voru að hrauna yfir dómarana strax eftir leik. Nú er ég búinn að róa mig niður og slaka á. Fyrstu viðbrögð við ykkur eru fyrst og fremst svekkelsi. Einum manni fleiri, 1-0 yfir. Það á bara að klára svona.”

„Ástæðan fyrir því að ég hrauna yfir dómarana er vegna þess að þetta var pjúra brot á Nikolaj Hansen í aðdraganda marksins. Hann er að taka boltann niður og það er stokkið á bakið á honum. Þeir bruna fram í sókn og skora. Við gátum dílað betur við þetta en það eru keðjuverkandi áhrif sem hafa áhrif á þetta mark.”

„Þetta var erfiður leikur og erfiður völlur. Það er erfitt að spila á þungum grasvelli þegar maður er búinn að venjast gervigrasinu, kannski alltof vel. Það þýðir svo sem lítið að væla yfir því. Það verða fullt af grasleikjum í sumar en þetta var samt þungur völlur. Hann er fjarskafallegur en hann er í raun og veru slæmur og hefur áhrif á gæði leiksins.”

Eyjamenn jöfnuðu leikinn í uppbótartíma. Arnar hafði þetta um það að segja: „Í þessum fótbolta. Þetta er bara game of margins. Það þarf svo lítið til að hlutirnir snúast á hvorn veginn sem er. Menn geta verið að tala um að við séum að væla og allt það en þetta er brot. Þú þarft að vera ansi blindur til að sjá það ekki. Það hefði átt að dæma brot og við með aukaspyrnu á miðjum vellinum en í staðinn bruna þeir í sókn. Leikmenn þurfa að læra þetta. Allir þurfa að læra þetta. Ég þurfti að læra þetta þegar ég var ungur maður. Litlu hlutirnir breytast mjög fljótt. Þú þarft að hafa fókus til að klára leikinn. Þeir brunuðu fram í sókn en hvar var vörnin mín þegar fyrirgjöfin kom? Það er hægt að rýna í það og kenna ýmsum um en fyrst og fremst þarftu bara 3 hluti til að vera mjög góður fótboltamaður. Þú þarft að vera góður í fótbolta. Þú þarft að vera mjög fit og þú þarft að hafa hátt fókuslevel. Það er erfitt að kenna það. Sumir hafa þetta meðfætt en það er oft það sem skilur á milli feigs og ófeigs. Að halda fókus í 90 mínútur plús.”

Víkingar hafa skorað í öllum sínum leikjum en að sama skapi eiga þeir í erfiðleikum með að halda hreinu. „Við erum með lið sem heldur bolta vel og fær alltaf færi. Við skorum alltaf en það er víst rosalega erfitt að vinna leiki ef þú færð fleiri mörk á þig en þú skorar, eða jafn mörg.”

„Eyjamennirnir börðust og voru kýla háa bolta inn og testa okkar varnarlínu. Þeir gerðu vel með það sem þeir lögðu upp með og gáfu okkur erfiðan leik. Það er hörkuleikur við KR næst. Við eigum eftir að sigra okkar fyrsta leik. Það er nóg eftir af þessu móti. Við erum á fínu róli. Fyrstu 4 leikirnir voru á móti toppliðum og við gáfum þeim öllum leik. Þetta er erfiður útivöllur þar sem lið sækja ekkert of mörg stig. Við vorum með leikinn í okkar höndum en klúðruðum þessu. Það er algjör óþarfti að leggjast og volæði og panikka,” sagði Arnar.
 
 

Bein lýsing

Leikirnir
    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.