Íslenski boltinn

Adam gerði þrennu í stórsigri Keflavíkur

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Keflvíkingar byrja Inkassodeildina af krafti
Keflvíkingar byrja Inkassodeildina af krafti vísir/bára

Keflavík valtaði yfir Aftureldingu, Víkingur Ólafsvík vann í Laugardal og Njarðvík hafði betur gegn Leikni í Inkassodeild karla í kvöld.

Keflvíkingar léku á alls oddi á Nettóvellinum suður með sjó í kvöld. Adam Árni Róbertsson skoraði þrennu í fyrri hálfleik.

Davíð Snær Jóhannsson og Rúnar Þór Sigurgeirsson skoruðu sitt hvort markið fyrir Keflavík í seinni hálfleik og endaði leikurinn með 5-0 stórsigri heimamanna. Keflavík er því með fullt hús stiga eftir þrjár umferðir.

Þrótti Reykjavík gengur brösulega í byrjun móts og er enn að leita að fyrsta sigrinum. Ejub Purisevic og hans menn í Víking Ólafsvík mættu í Laugardalin og hirtu stigin þrjú.

Jacob Andersen kom gestunum frá Ólafsvík yfir strax á þriðju mínútu og skildi mark hans liðin að í hálfleik.

Þróttarar jöfnuðu metin eftir um klukkutíma leik, það gerði Birkir Þór Guðmundsson með hörkuskoti af löngu færi. Staðan var þó ekki lengi jöfn því Harley Willard kom Víkingum aftur yfir á 77. mínútu og þar sat við, lokatölur 2-1 fyrir Víking.

Grænir Njarðvíkingar mættu í Breiðholtið og sóttu Leikni heim. Það voru gestirnir sem byrjuðu betur og kom Toni Tipuric þeim yfir á 32. mínútu.

Stefán Birgir Jóhannesson náði að tvöfalda forskot gestanna áður en hálfleikurinn var lokið.

Undir lok venjulegs leiktíma fékk Leiknir vítaspyrnu eftir að Sævar Atli Magnússon féll við í teignum. Hann fór sjálfur á línuna en Brynjar Atli Bragason varði vítið. Frákastið féll hins vegar fyrir Sævar og þá skoraði hann.

Nær komst Leiknir hins vegar ekki og endaði leikurinn með 2-1 sigri Njarðvíkur.

Upplýsingar um úrslit og markaskorara eru fengnar frá Fótbolta.net.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.