Erlent

Brexit-bræði bitnar á stóru flokkunum

Kjartan Kjartansson skrifar
Kjósendur virðast hafa beint reiði sinni að Íhaldsflokki May (t.v.) og Verkamannaflokki Jeremy Corbyn (t.h.).
Kjósendur virðast hafa beint reiði sinni að Íhaldsflokki May (t.v.) og Verkamannaflokki Jeremy Corbyn (t.h.). Vísir/EPA
Bæði Íhaldsflokkurinn og Verkamannaflokkurinn töpuðu sætum en minni flokkar unnu á í sveitarstjórnarkosningunum á Englandi og Norður-Írlandi sem fóru fram í gær. Stjórnmálaskýrendur túlka úrslitin sem svo að kjósendur hafi refsað flokkunum tveimur fyrir hvernig þeir hafa haldið á útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu.

Kosið var til sveitarstjórnar á 248 stöðum á Englandi auk sex borgarstjóraembætta og til allra ellefu sveitarstjórna á Norður-Írlandi. Þrátt fyrir að talningu væri lokið í innan við helmingi sveitarstjórna á Englandi í morgun hafa fulltrúar bæði Íhaldsflokksins og Verkamannaflokksins viðurkennt að kosningarnar hafi verið blóðtaka fyrir þá, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Miðað við þær tölur sem liggja fyrir hefur Íhaldsflokkur Theresu May forsætisráðherra tapað um 430 sætum í sveitarstjórnum. Mögulegt er tapið nemi að minnsta kosti 800 sætum þegar öll atkvæði hafa verið talin. Flokkurinn hefur tapað meirihluta í sautján sveitarstjórnum og Verkamannaflokkurinn þremur.

Frjálslyndir demókratar unnu verulega á og hafa bætt við sig 300 sætum. Þeir hafa náð meirihluta í átta sveitarstjórnum fram að þessu. Auk þeirra bættu Græningjar og minni sjálfstæðir flokkar við sig sætum. Breski sjálfstæðisflokkurinn Ukip hefur tapað 54 sætum.

Upphaflega ætluðu Bretar að ganga úr Evrópusambandinu 29. mars. Því var frestað þar sem breska þingið felldi útgöngusamningi May forsætisráðherra ítrekað. Útgöngunni hefur nú verið frestað til 31. október.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.