Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: KA 1-0 Valur | Meistararnir enn í leit að fyrsta sigrinum

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Hallgrímur Mar Steingrímsson tryggði KA sigur á Val
Hallgrímur Mar Steingrímsson tryggði KA sigur á Val vísir/bára
KA-menn fengu Íslandsmeistara Vals í heimsókn á Akureyrarvöll í 2.umferð Pepsi Max deildar karla í dag en bæði lið voru í leit að sínum fyrsta sigri í deildinni þetta sumarið.

Þetta var fyrsti leikur Íslandsmeistaranna á náttúrulegu grasi í sumar og þeir áttu í stökustu vandræðum með að fóta sig í fyrri hálfleiknum. Á sama tíma gekk KA-mönnum ágætlega að rúlla boltanum og þeir voru mun hættulegri aðilinn í fyrri hálfleik. Elfar Árni Aðalsteinsson var ógnandi og fékk bestu færi fyrri hálfleiks án þess þó að koma boltanum fram hjá Hannesi Þór Halldórssyni í marki Vals.

KA-menn gerðu tvisvar sinnum tilkall til þess að fá vítaspyrnu í fyrri hálfleik. Í fyrra skiptið vildi Elfar Árni fá víti eftir að Hannes Þór virtist kippa undan honum fótunum. Skömmu fyrir leikhlé kölluðu KA-menn aftur eftir vítaspyrnu þegar boltinn skoppaði í höndina á Sebastian Hedlund innan vítateigs.

Í síðari hálfleik dró snemma til tíðinda þegar KA-menn komust upp vinstri kantinn sem endaði með því að Kaj Leó í Bartalsstovu braut klaufalega á Ými Má Geirssyni innan vítateigs og KA-menn fengu loksins vítaspyrnu. Hallgrímur Mar Steingrímsson fór á punktinn og skoraði af öryggi. KA-menn komnir í forystu.

Í kjölfarið lögðust KA-menn aftar á völlinn og leyfðu Valsmönnum að hafa boltann. Valur pressaði stíft en voru hins vegar aldrei sérstaklega nálægt því að ógna marki KA-manna. Vörn heimamanna hélt út og KA-menn voru raunar nær því að bæta við mörkum en Valur að jafna þar sem heimamenn fengu nokkur góð færi eftir skyndisóknir en tókst ekki að nýta þau. Lokatölur 1-0 fyrir KA og Íslandsmeistarar Vals án sigurs eftir tvær umferðir.

Af hverju vann KA?

Ein vítaspyrna skilur liðin að. Engu að síður var sigur KA-menna verðskuldaður því þó það hafi klárlega verið vorbragur á spilamennsku beggja liða áttu heimamenn heilt yfir mun betri spilkafla og fengu fleiri færi. Þar fyrir utan skein leikgleði og baráttuvilji í gegn hjá KA-mönnum á meðan stemningin var aðeins þyngri hjá leikmönnum gestanna.

Hverjir stóðu upp úr?

Jöfn frammistaða hjá KA-liðinu. Allir leikmenn liðsins lögðu allt í sölurnar. Haukur Heiðar Hauksson spilaði mjög vel þar til hann þurfti að fara af velli 20 mínútum fyrir leikslok. Ýmir Már Geirsson gerði vel þegar hann sótti vítaspyrnuna sem skildi liðin að auk þess að eiga gallalausan leik í bakverðinum.

Maður leiksins er hins vegar Almarr Ormarsson. Óþreytandi á miðjunni og styrkir lið KA gífurlega að vera búið að fá þennan baráttujaxl aftur heim.

Hvað gekk illa?

Stjörnum prýtt lið Vals skapaði sér ekki eitt gott marktækifæri í öllum leiknum. Varnarleikur KA á hrós skilið en um leið verður að lasta Valsara fyrir hugmyndasnauðan sóknarleik. Áttu engin svör.

Hvað gerist næst?

Valur heldur áfram að reyna að innbyrða fyrsta sigur sumarsins þegar þeir fá Skagamenn í heimsókn næstkomandi laugardag. KA-manna bíður annað verðugt verkefni þar sem þeir heimsækja FH í Kaplakrika næstkomandi föstudag.

Óli Stefán: Ánægður og stoltur
Óli Stefán ásamt Torfa Tímoteusmynd/ka
„Gríðarlega ánægður og stoltur af strákunum. Þeir lögðu mikið vinnuframlag í þennan leik enda þurfti allt að vera á hreinu gegn góðu liði Valsmanna,“ sagði Óli Stefán Flóventsson, þjálfari KA í leikslok.

KA tapaði 1-3 fyrir ÍA í fyrsta leik sínum í mótinu en Óli Stefán sagði liðið hafa byggt á það sem honum fannst góðri frammistöðu í þeim leik.

„Við skiluðum góðri frammistöðu á Skaganum. Við spiluðum góðan leik. Aðalvinnan var að taka utan um þá frammistöðu og halda áfram að ná þeirri frammistöðu hér í dag. Ef þú nærð að tengja saman frammistöður eru líkur á að þú náir úrslitum og frábært að við skyldum ná að skora og halda hreinu hér í dag.“

„Ég er svo ánægður með fólkið okkar. Strákarnir gáfu allt í þetta fyrir framan þessa geggjuðu stuðningsmenn. Við sýndum þessa samstöðu sem við erum þekktir fyrir og ég er gríðarlega stoltur af því,“ sagði Óli Stefán en KA-menn halda áfram að etja kappi við bestu lið deildarinnar á næstu dögum þar sem næstu leikir liðsins eru gegn FH, Breiðablik og Stjörnunni.

„Þessi sigur gefur okkur helling. Við erum að fara í gegnum ofboðslega erfitt prógram. Við fáum hvert stórliðið á eftir öðru í næstu umferðum og þess vegna eru þessir þrír punktar gríðarlega dýrmætir,“ sagði Óli Stefán.

Óli Jó: Ef deildin væri bara tvær leikir væri þetta slæmt
Ólafur Jóhannesson.vísir/bára
Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals, var stuttur í spuna eftir að hafa séð lið sitt tapa fyrir KA-mönnum.

„Þetta voru vonbrigði. Það er svekkjandi að við skildum ekki hafa gert betur í dag. Það var meiri vilji í KA liðinu. Þeir vildu þetta meira en við og ég held að það hafi verið munurinn á liðunum,“ sagði Ólafur.

Íslandsmeistararnir aðeins með eitt stig eftir tvo leiki og úr leik í bikarnum. Sér Ólafur eitthvað jákvætt hjá sínu liði þrátt fyrir þessa slæmu byrjun?

„Við erum með fínt lið og menn þurfa bara að fara að trúa því sjálfir að við séum með fínt lið. Byrjunin er ekki eins og við hefðum viljað hafa en við höfum svo sem byrjað svona áður,“ sagði Ólafur sem kveðst ekki mjög áhyggjufullur yfir stöðunni á Val.

„Það eru bara tveir leikir búnir. Óneitanlega lítur þetta ekki vel út hjá okkur. Ef deildin væri bara tveir leikir væri þetta slæmt en það er nóg eftir og við verðum bara að trúa á okkur. Ég hef fulla trú á að við munum ná að koma fljótt til baka,“ sagði Ólafur.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira