Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Grindavík - Stjarnan 1-1 | Tvö vítaspyrnumörk í jafntefli suður með sjó

Smári Jökull Jónsson skrifar
vísir/vilhelm
Grindvíkingar náðu í sitt fyrsta stig í Pepsi-Max deildinni í sumar þegar þeir gerðu 1-1 jafntefli við Stjörnuna á heimavelli í kvöld. Mörkin í kvöld komu bæði úr vítaspyrnum líkt og í leik Stjörnunnar gegn KR í fyrstu umferðinni.Stjörnumenn voru sterkari í fyrri hálfleik og líkt og í fyrstu umferðinni gegn Blikum voru Grindvíkingar ragir þegar þeir sóttu fram völlinn og það vantaði bæði kraft og fleiri menn fram á við þegar þeir reyndu að byggja upp sóknir.Stjörnumenn fengu vítaspyrnu á 28.mínútu þegar Guðmundur Steinn Hafsteinsson var felldur í teignum af Vladan Djogatovic markverði Grindavíkur. Guðmundur Steinn steig sjálfur á vítapunktinn og skoraði af miklu öryggi.Staðan var 1-1 í hálfleik og þó svo að Grindvíkingar kæmu aðeins framar á völlinn í síðari hálfleiknum virtust Stjörnumenn vera með öll tök á leiknum. En á 64.mínútu benti Helgi Mikael Jónasson dómari aftur á vítapunktinn þegar Josip Zeba féll í baráttu við varnarmenn Stjörnunnar þegar boltinn var á leið inn í teig.Hollendingurinn Patrick Nkoyi steig á punktinn og gerði engin mistök og jafnaði metin í 1-1.Það sem eftir lifði leiks voru Stjörnumenn sterkari en vantaði að skapa sér almennilegt færi. Grindvíkingar börðust vel og voru sjálfsagt nokkuð fegnir þegar flautað var til leiksloka.Af hverju varð jafntefli?Hvorugu liðinu gekk vel að opna vörn andstæðingsins. Stjörnumönnum öllu betur og þeir fengu ágætis hlaup upp vinstri kantinn en það vantaði meiri grimmd og ákefð í teignum hjá Garðbæingum.Grindvíkingar voru daufir í upphafi leiks og var mikið um feilsendingar. Þeim óx ásmegin og voru töluvert sterkari í seinni hálfleik en í þeim fyrri. Þeir börðust vel og unnu varnarvinnuna nokkuð vel.Þessir stóðu upp úr:Hjá Grindavík var markvörðurinn Vladan Djogatovic öruggur í flestum sínum aðgerðum fyrir utan það þegar hann fékk á sig vítaspyrnuna. Að öllum líkindum var það réttur dómur þó erfitt væri að sjá það úr blaðamannastúkunni. Gunnar Þorsteinsson barðist vel á miðjunni og miðverðirnir Mark Mcausland og Josip Zeba voru traustir.Lið Stjörnunnar var þétt í dag og lítið um veikleika. Guðmundur Steinn stóð sig ágætlega í framlínunni og þá var Þórarinn Ingi duglegur á vinstri kantinum og átti nokkur ágæt upphlaup. Guðjón Baldvinsson var hættulegur á meðan hans naut við en hann fór meiddur útaf í leikhléi.Hvað gekk illa?Þrátt fyrir að Stjörnumenn væru að spila nokkuð vel úti á velli, í forystu og með góða stjórn á leiknum þá missa þeir leikinn niður í jafntefli annan leikinn í röð. Þá vantar örlítið meiri gæði í sinn leik á síðasta þriðjungnum til að skapa virkilega góð færi þegar þeir komast í sókn.Grindvíkingar voru bitlausir og hægir í sínum sóknaraðgerðum framan af leik en litu þó betur út í síðari hálfleik. Þeir þurfa að ná að tengja betur við Patrick Nkoyi í framlínunni sem komst aldrei í takt við leikinn í dag.Hvað gerist næst?Grindvíkingar halda til Vestmannaeyja og mæta þar liði ÍBV sem hefur tapað báðum leikjum sínum til þessa og eru með markatöluna 0-6. Suðurnesjamenn sjá eflaust tækifæri á stigum í þeim leik.Stjörnumenn taka á móti HK á föstudaginn sem mæta fullir sjálfstrausts til leiks eftir jafntefli við Blika um helgina þar sem þeir voru klaufar að ná ekki í þrjú stig. Allt annað en þrjú stig úr þessum leik væru vonbrigði fyrir Garðbæinga.

Rúnar Páll: Við skorum alltaf mikið af mörkum
Rúnar Páll var ekki sáttur með jafnteflið í kvöld.Vísir/Daníel
„Ég get ekki sagt að ég sé voðalega sáttur. Það er sárt að fá á sig víti þegar það er ekkert að gerast í leiknum hjá Grindavík, það er dýrt. Þeir fá ekki eitt einasta færi í þessum leik og Halli þurfti ekki að verja einu sinni,“ sagði Rúnar Páll Sigmundsson þjálfari Stjörnunnar eftir jafnteflið í Grindavík í kvöld.„Við stjórnum leiknum frá a-ö og síðan fá þeir víti og það er blóðugt. Þetta er annan leikinn í röð sem við fáum ekki nema eitt stig en svona er þetta bara,“ bætti Rúnar við en Stjarnan gerði jafntefli við KR í fyrsta leik en þá komu einnig bæði mörk leiksins úr vítaspyrnum.Rúnar sagði að hans menn hefðu mátt gera betur í þeim hættulegu sóknum sem þeir sköpuðu.„Við vorum ekki flinkir að nýta þau upphlaup sem við fáum, við fengum frábær upphlaup á vinstri kantinum í seinni hálfleik og nýttum þau ekki nógu vel. Við verðum að gera betur þar.“„Menn verða að vera grimmari fyrir framan mark andstæðingsins, við komumst oft bakvið varnirnar en gerum ekki nógu vel með síðustu sendinguna. Aftur á móti spilum við vel í dag, stjórnum leiknum allan tímann en náðum bara að skora eitt mark og það var ekki nóg.“Guðjón Baldvinsson fór útaf í hálfleik í dag eftir að hafa fengið höfuðhögg í fyrri hálfleiknum og sjálfur sagði Guðjón við blaðamann að hann hefði fengið heilahristing og verið óglatt í leikhléinu.„Hann fékk eitthvað högg á höfuðið og er í ferli varðandi það.“Rúnar Páll sagðist ekki hafa áhyggjur af því að Stjörnuliðið væri ekki búið að skora úr opnum leik í fyrstu tveimur umferðunum.„Það er ekki áhyggjuefni eftir tvo leiki, ég hef engar áhyggjur af því. Ég veit að við skorum alltaf mikið af mörkum og það verður engin breyting á því í sumar, ég er alveg klár á því. Við erum með hörkulið og þurfum bara að halda áfram og mætum galvaskir með bros á vör gegn HK í næsta leik."

Tufa: Allir þurfa að veita þjónustu svo sóknin virki
Tufa er þjálfari Grindavíkur.Vísir/Ernir
Srdjan Tufegdzig þjálfari Grindavíkur var ánægður með að fyrsta stigið væri í höfn hjá Grindavík í Pepsi-Max deildinni.„Við vorum að spila í dag gegn bikarmeisturunum, lið sem berst um titla á hverju ári. Það var mikill vilji hjá mínum mönnum og mikil barátta, það er ekkert auðvelt að lenda undir og snúa leiknum á móti Stjörnunni. Við gáfumst aldrei upp og uppskerum nokkuð sanngjarnt stig þegar upp er staðið,“ sagði Tufa þegar blaðamaður Vísis ræddi við hann að leik loknum í kvöld.Grindvíkingar voru nokkuð ósáttir með vítaspyrnuna sem Stjörnumenn fengu í fyrri hálfleik en Tufa vildi lítið segja um þá ákvörðun Helga Mikaels Jónassonar.„Það er erfitt að dæma áður en ég sé það betur. Hann (Helgi Mikael) beið í tvær sekúndur áður en hann benti á punktinn þannig að hann hlýtur að vera 100% klár á þessari ákvörðun. Við verðum að treysta dómurunum, við fengum líka víti og ég er yfirleitt maður sem kvarta lítið undan dómgæslu.“Grindvíkingar töpuðu fyrsta leiknum í deildinni gegn Breiðablik og líkt og í þeim leik skorti upp á gæðin sóknarlega þó svo að leikur þeirra gulklæddu batnaði eftir því sem á leið í kvöld.„Að mörgu leyti eru þetta framfarir. Eina sem vantar er að trúa á sjálfa okkur. Strákarnir mínir eru hetjur, hvernig þeir æfa og hvað þeir eru að gera á hverjum degi. Ef við tökum með okkur meira sjálfstraust þá held ég að við ættum að geta spilað vel gegn öllum liðum í þessari deild.“„Til að sóknarleikurinn virki þurfa allir á vellinum að veita þjónustu. Uppspilið byrjar yfirleitt hjá markmanni og fer síðan í gegnum miðjuna og svo nýta sóknarmenn færið eða ekki. Við skoruðum fjögur mörk í bikarleiknum og eitt mark í dag gegn hörkuliði,“ sagði Tufa og bætti við að það tæki tíma að búa til nýtt lið í Grindavík.„Lið sem er með nýjan markmann, nýja varnarlínu, nýja miðju og nýja sókn þarf tíma til að slípa sig saman.“

Guðmundur Steinn: Ég er á undan í boltann og hann fer í mig
Guðmundur Steinn fagnar ásamt Guðjóni Baldvinssyni.Vísir/Daníel
Guðmundur Steinn Hafsteinsson var í sviðsljósinu í dag gegn Grindavík, hann nældi í vítaspyrnu sem hann skoraði svo sjálfur úr.„Ef ég man þetta rétt kemur skot á markið sem ég svo fylgi eftir. Ég og markmaðurinn lendum í kapphlaupi, ég er á undan í boltann og hann fer í mig. Þetta er ekkert gróft brot en hann fer klárlega í mig eftir að ég snerti boltann og það var ekkert annað að gera fyrir dómarann en að dæma víti.“Stjörnumenn eru með tvö stig eftir tvo leiki sem Guðmundur Steinn sagði minna en vonir stóðu til.„Staðan er allt í lagi en það eru gríðarleg vonbrigði að vera bara með tvö stig, við hefðum viljað vera með sex. Við erum búnir að vera yfir í leikjum með stöðu sem við eigum að geta unnið úr þannig að við endum með sigur en það hefur klikkað núna tvo leiki í röð.“Guðjón Baldvinsson fór útaf í hálfleik í dag og þá þurftu Stjörnumenn að gera smá tilfærslur í sókninni.„Guðjón er sterkur leikmaður sem er lykilmaður í okkar spili og okkar uppbyggingu þannig að það riðlast aðeins leikurinn. Við þurfum aðeins að bregðast við því og endurskipuleggja okkar leik að einhverju leyti, þó svo að Þorsteinn Már (Ragnarsson) sé svipaður leikmaður að því leyti að hann er duglegur að hlaupa í þessi svæði.“„Ég veit ekki hvort það gerði útslagið eða eitthvað annað en við stóðum okkur ekki nógu vel með stöðuna 1-0 í hálfleik,“ sagði Guðmundur Steinn að lokum.

Gunnar: Tufa var með töframeðalið hans Bugs Bunny úr Space Jam
Gunnar er fyrirliði GrindavíkurVísir/Daníel
Gunnar Þorsteinsson, fyrirliði Grindavíkur, var nokkuð sáttur með stigið þegar blaðamaður ræddi við hann eftir leikinn í kvöld.„Úr því sem komið var þá er þetta klárlega unnið stig. Það er mjög erfitt að lenda undir gegn Stjörnunni og þetta er pínu eins og ÍBV-Haukar í handboltanum um daginn, rosalegur barningur. Þeir eru náttúrulega tröll að burðum margir og hlaupa mjög vel afturfyrir línuna og eru góðir í því sem þeir gera.“Gunnar sagði að enn hefði mátt sjá sömu vandamál sóknarlega og gegn Blikum í fyrstu umferðinni.„Mér fannst fyrri hálfleikur vera svolítið endurtekið efni, mér fannst menn vera ragir og ekki hafa trú á sjálfum sér eða verkefninu. Svo var Tufa bara með töframeðalið hans Bugs Bunny úr Space Jam í hálfleik og við komum tvíefldir til leiks í seinni hálfleik.“Grindvíkingar fara næst til Eyja og mæta þar ÍBV en Gunnar þekkir vel til þar enda á hann þangað ættir að rekja og hefur leikið með ÍBV í efstu deild.„Við höfum tapað þar frekar illa síðustu tvö ár. Við munum gera þetta aðeins öðruvísi í ár og ferðast þangað daginn áður. Ég og Hermann Ágúst Björnsson ætlum að vera með leiðsöguferð um Eyjuna þannig að menn verða aðeins búnir að kynnast Eyjunum betur þannig að við erum að vonast til að það muni hjálpa okkur í undirbúningnum,“ sagði Gunnar léttur að vanda.

Bein lýsing

Leikirnir
    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.