Enski boltinn

Solskjær: Ekki raunhæft að berjast um titil næsta vetur

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Solskjær tók við liði United rétt fyrir jól
Solskjær tók við liði United rétt fyrir jól vísir/getty
Ole Gunnar Solskjær segir það ekki raunhæft að Manchester United geti barist um titla á næsta tímabili. Mikilvægt sé að félagið nái að halda sér á meðal sex efstu.

Manchester United á ennþá möguleika á að enda á meðal fjögurra efstu í ensku úrvalsdeildinni en það veltur á því að Arsenal, Chelsea og Tottenham tapi stigum.

Manchester United hefur unnið Englandsmeistaratitilinn oftar en nokkuð annað félag á Englandi. Það er hins vegar „óraunhæft“ að United geti barist um titilinn á næsta tímabili að mati Solskjær.

„Þú nærð ekki allt í einu í auka 27 stig á einu tímabili,“ sagði Norðmaðurinn.

Hann segir að félagið þurfi að einbeita sér að því að halda sér á meðal sex efstu.

„Félög eins og Leicester, Everton, Watford og Newcastle vilja öll reyna að ná okkur. Við þurfum að sjá til þess að við séum að elta félögin sem eru fyrir ofan okkur.“

„Við þurfum að passa okkur á því að færast í þá átt, ofar í töfluna, en ekki líta um öxl því þetta eru stór og góð lið sem vilja ná að halda í efstu sex.“

Manchester United mætir Huddersfield í dag í leik sem liðið verður að vinna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×