Íslenski boltinn

Víkingur Ólafsvík vann nýliðana

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Ejub byrjar á sigri
Ejub byrjar á sigri vísir/ernir
Víkingur Ólafsvík, Keflavík, Fjölnir og Njarðvík byrjuðu tímabilið í Inkassodeildinni á sigri en deildin fór af stað um helgina.

Grótta kom upp í Inkassodeildina síðasta haust og byrjaði á erfiðum útileik í Ólafsvík. Víkingar voru í toppbaráttu í deildinni síðasta sumar og sýndu gæði sín í dag.

Jacob Andersen skoraði fyrsta mark leiksins á 34. mínútu og Harley Willard bætti örðu við á 89. mínútu, Víkingur vann 2-0 sigur.

Keflvíkingar féllu úr efstu deild síðasta haust án þess að vinna leik. Þeir eru strax búnir að gera betur á þessu tímabili því fyrsti sigurinn kom í fyrsta leiknum.

Gestirnir í Fram byrjuðu leikinn í Keflavík hins vegar betur og kom Helgi Guðjónsson þeim yfir á sjöundu mínútu. Það var ekki fyrr en á 69. mínútu að Dagur Ingi Valsson náði að jafna fyrir Keflavík og rétt undir lok leiksins gerði varamaðurinn Jóhann Þór Arnarsson sigurmarkið fyrir Keflavík, lokatölur 2-1.

Í Grafarvogu unnu Fjölnismenn 2-1 sigur á Haukum. Albert Brynjar Ingason, sem kom til Fjölnis í vetur, skoraði fyrsta markið á 23. mínútu og tíu mínútum seinna bætti Hans Viktor Guðmundsson marki við fyrir Fjölni.

Haukar náðu að minnka muninn á 90. mínútu en það kom of seint og heimamenn unnu sigur.

Á Eimskipsvellinum í Laugardal sóttu Njarðvíkingar þrjú stig með 3-2 sigri á Þrótti.

Brynjar Freyr Garðarsson kom gestunum yfir á sjöundu mínútu en Rafael Victor jafnaði metinn á 14. mínútu og var staðan jöfn í hálfleik.

Á 67. mínútu fékk Þróttur víti þegar Brynjar Atli Bragason braut á Ágústi Leó Björnssyni. Aron Þórður Albertsson fór á punktinn og skoraði.

Stéfán Birgir Jóhannesson jafnaði hins vegar metin á 70. mínútu og tveimur mínútum seinna kom Bergþór Ingi Smárason Njarðvíkingum yfir. Þar við sat, Njarðvík fór með sigur.

Upplýsingar um úrslit og markaskorara eru fengnar frá Fótbolta.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×