Íslenski boltinn

Jói Kalli: Sjálfsmarkið breytti leiknum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jóhannes Karl Guðjónsson.
Jóhannes Karl Guðjónsson. Vísir
„Úr því sem komið var er ég ánægður með þetta stig. Við fórnuðum ýmsu úr varnarleiknum til að ná jöfnunarmarkinu og það hafðist að lokum,“ sagði Jóhannes Karl sem var þó ekki fyllilega sáttur við leikinn.

„Markið sem við gefum Fylki kemur þeim inn í leikinn og gefur þeim sjálfstraust. Það var svolítið klaufalegt hjá okkar mönnum. En úr því sem komið var sýndu strákarnir frábæran karakter að koma til baka.“

ÍA byrjaði af krafti í leiknum en gaf eftir í síðari hálfleik. Jóhannes segir að sjálfsmarkið hafi breytt leiknum.

„Ég held að Fylkir hafi ekki átt skalla að marki eða unnið fast leikatriði í allan dag. Við unnum því miður þetta líka en settum boltann því miður í eigið mark. Svona lagað getur auðvitað komið fyrir.“

Hann segist hafa brugðið við með því að gera nokkrar breytingar á sínu liði.

„Það skiptir samt engu máli hvaða breytingar ég gerði sem þjálfari, heldur snýst þetta um það að strákarnir sýndu karakter til þess að keyra sig alla leið áfram og jafna leikinn.“

ÍA er nú með fjögur stig eftir fyrstu tvær umferðirnar og við það er þjálfarinn sáttur.

„Það er frábær byrjun hjá strákunum.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×