Enski boltinn

Leikmenn Man. City skipta á milli sín 2,4 milljörðum ef þeir vinna þrennuna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Raheem Sterling fagnar marki með Manchester City á tímabilinu.
Raheem Sterling fagnar marki með Manchester City á tímabilinu. Getty/Robbie Jay Barratt
Það er ekki bara tveir titlar og söguleg þrenna í boði fyrir leikmenn Manchester City á næstu vikum því einnig risastór bónus takist liðinu að vinna þrennuna.

Telegraph segir frá því að leikmenn Manchester City fái að skipta á milli sín fimmtán milljónum punda í bónusgreiðslur takist liðinu að verða Englandsmeistari, bikarmeistari og deildabikarmeistari. Síðasti titilinn er kominn í hús en það ræðst á næstu vikum hvort liðið vinni hina tvo líka.

15 milljónir punda eru 2,4 milljarðar íslenskra króna. Leikmenn City hefðu fengið enn hærri bónus ef liðið hefði komist eitthvað lengra í Meistaradeildinni.





Allskyns reglur eru um það hvort og hve mikið hver leikmaður fær í bónus. Til að fá fullan bónus þá þarf viðkomandi leikmaður að hafa spilað yfir 60 prósent mínútna sem voru í boði í hverri keppni. Annars helmingast bónusgreiðslan og aðeins leikmenn sem hafa spilað í hverri keppni fá bónus fyrir hana.

Hámarksbónusgreiðslur samkvæmt samningum leikmanna eru 20 milljónir punda en Telegraph telur að Manchester City sleppi við að borga fimm milljónir af þeim þar sem sumir leikmenn hafa ekki náð að spila nauðsynlegan mínútufjölda á þessu tímabili.

Blaðamaður Telegraph tekur sem dæmi Belgann Kevin De Bruyne. Samkvæmt hans samningi þá á hann að fá 750 þúsund punda bónus fyrir að vinna ensku deildina, 300 þúsund pund í viðbót fyrir að vinna enska bikarinn og 75 þúsund pund fyrir að vinna enska deildabikarinn. Kevin De Bruyne ætti þá enda með 1.125 þúsund pund vinni liðið þrennuna eða 180 milljónir íslenskra króna.

De Bruyne hefur hins vegar misst af leikjum vegna meiðsla og því minnka þessar bónusgreiðslur hans eitthvað vegna þeirra.

Manchester City getur endurheimt toppsætið í ensku úrvalsdeildinni vinni liðið Leicester City á Etihad leikvanginum í kvöld.

Liðið gæti þá tryggt sér enska titilinn um næstu helgi og sex dögum síðar spilar liðið síðan við Watford í úrslitaleik ensku bikarkeppninnar.

Manchester City gæti orðið fyrsta liðið í enska fótboltanum til að vinna þrefalt heima fyrir. Þetta getur því enn orðið sögulegt vor fyrir Pep Guardiola og lærisveina hans þrátt fyrir að liðið hafi misst af fernunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×