Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Víkingur - FH 1-1 | Jafntefli í Laugardalnum

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Jónatan Ingi Jónsson var öflugur í fyrri hálfleik
Jónatan Ingi Jónsson var öflugur í fyrri hálfleik vísir/vilhelm
Víkingur og FH skildu jöfn 1-1 á Eimskipsvellinum í Laugardal í lokaleik annarrar umferðar Pepsi Max deildar karla í fótbolta í kvöld.

Leikurinn byrjaði frekar rólega. Bæði lið áttu hálffæri snemma leiks en það helsta fréttnæma sem gerðist á fyrstu tuttugu mínútunum var að Brandur Olsen fékk gult spjald fyrir brot á Davíð Erni Atlasyni.

FH fékk tvö mjög góð færi um miðjan hálfleikinn, Þórður Ingason varði vel frá Jónatan Inga Jónssyni og Kristinn Steindórsson átti gott skot hársbreidd framhjá.

Það var mjög jafnt á með liðunum í fyrri hálfleiknum. Víkingar pressuðu vel á FH-inga en hvítklæddir gestirnir voru þó meira með boltann án þess að skapa sér mörg færi. Á 40. mínútu kom svo mark í leikinn nokkurn veginn upp úr þurru.

Víkingur átti innkast við vítateig FH, Davíð Örn kastaði löngum bolta inn á teiginn. Gunnar Nielsen hreinlega missti boltann frá sér, Nikolaj Hansen var fyrstur til að bregðast við og setti boltann í netið.

Stuttu seinna sýndi Brandur Olsen dómgreindarleysi og fór í óþarflega harða tæklingu sem þýddi að hann fékk sitt annað gula spjald og var sendur snemma í sturtu. FH var því manni færra allan seinni hálfleikinn.

Röndóttir heimamenn byrjuðu seinni hálfleikinn af miklum krafti og ætluðu sér greinilega að nýta mismuninn. Þeir uppskáru á 53. mínútu þegar fyrirliðinn Sölvi Geir Ottesen skallaði boltann í netið. Ívar Orri Kristjánsson dæmdi markið hins vegar af, hann hefur eitthvað séð sem gerði Sölva brotlegan í teignum.

Þegar líða fór á seinni hálfleikinn efldust Hafnfirðingar aftur upp og áttu þeir nokkur hættuleg færi. Á 71. mínútu jöfnuðu þeir svo metin og var þar að verki Halldór Orri Björnsson, sem hafði komið inn sem varamaður stuttu fyrr. Hann átti þrumuskot upp í hægra markhornið sem Þórður Ingason náði ekki í.

Hvorugu liðinu tókst að ræna sigrinum undir lokin og því lauk leik með 1-1 jafntefli. FH fer í fjögur stig líkt og Fylkir, KR, ÍA og Breiðablik. Víkingur er með tvö stig eftir tvær umferðir.

Atli Guðnason í baráttunni við mark Víkingsvísir/vilhelm
Af hverju varð jafntefli?

Víkingar hefðu átt að nýta sér það betur að vera manni fleiri. Vissulega skoruðu þeir mark sem hefði kannski átt að standa, úr blaðamannastúkunni sást ekki mikið að markinu en það þarf ekki að þýða að Sölvi hafi ekki brotið af sér.

Fljótlega eftir að markið var dæmt af datt aðeins úr sóknarkrafti Víkinga og þeir hleyptu FH-ingum aftur inn í leikinn.

Að sama skapi fékk FH tvö mjög góð færi í fyrri hálfleik sem þeir hefðu átt að nýta.

Hverjir stóðu upp úr?

Þetta var heilt yfir nokkuð jöfn frammistaða hjá báðum liðum. Davíð Örn Atlason skilaði mjög stöðugri frammistöðu í bakverðinum, skilaði sínu dagsverki vel. Ágúst Eðvald Hlynsson var öflugur á kantinum.

Í liði FH var Jónatan Ingi Jónsson öflugur í fyrri hálfleik, hann sást lítið í upphafi þess seinni og var fljótlega tekinn út af. Innkoma Halldórs Orra hafði mikil áhrif á leikinn og var hann ferskur þegar hann kom inn.

Hvað gekk illa?

Í fyrri hálfleik þegar jafnt var í liðum gekk báðum liðum frekar illa að skapa sér dauðafæri. Bæði fengu þau færi til þess að skora en ekkert klárt dauðafæri. Í seinni hálfleik náðu Víkingar ekki að nýta sér liðsmuninn.

Hvað gerist næst?

Næsta umferð hefst strax á föstudag og þar á FH fyrsta leik umferðarinnar. Þeir taka á móti KA á Kaplakrikavelli. Víkingur fer í Kópavog og mætir Breiðabliki á laugardag.

 

Halldór Orri Björnsson skorar jöfnunarmarkiðvísir/vilhelm
Arnar: Urðum full rólegir og værukærir

„1-0 í hálfleik og einum manni fleiri, ég get ekki verið sáttur með stigið,“ sagði Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkinga, í leikslok.

„Við erum að spila við gríðarlega sterkt lið, vel mannað og góðir í fótbolta. Þeir refsuðu okkur, mér fannst þeir fá hættulegri færi eftir að þeir voru einum færri. Við fórum að vera full rólegir og værukærir, vantaði að keyra upp tempóið.“

„Við reyndum hvað við gátum í lokin en þetta var bara ekki nóg.“

Markið sem dæmt var af þeim í upphafi seinni hálfleiks, hvernig leit það við honum?

„Ég verð að segja bara þetta klassíska, ég sá það bara ekki,“ sagði Arnar. „Sölvi kemur bara á ferðinni og mér fannst þetta vera mark, en svo getur vel verið að það komi í ljós að hann hafi brotið á undan. Það var allavega soft finnst mér.“

Hvað stóð upp úr að hans mati í leik Víkings í dag? „Mér fannst við flottir fyrstu 25 mínúturnar, en svo komust FH betur inn í leikinn, fóru að láta okkur hlaupa aðeins og það var aðeins off í pressunni hjá okkur.“

„Mér fannst við bara flottir í því að við vorum að pressa og reyna allan tímann og lögðum gríðarlega orku í þennan leik.“

vísir/vilhelm
Ólafur: Hefði átt að taka Brand út fyrr

„Í fyrri hálfeik þá fáum við færi til að skora og eigum að nýta þau. Við fáum þau líka í seinni hálfleik og ég hefði, örugglega eins og Arnar, viljað vinna leikinn. En fyrst við nýtum ekki færin þá verð ég að taka þetta stig og setja það í pokann,“ sagði Ólafur Kristjánsson, þjálfari FH.

„Við verjumst því sem Víkingarnir koma með og fannst við refsa þeim. Hefðum mátt vera örlítið skynsamari. Þetta snýst um það að setja færri góðar sóknir heldur en margar lélegar. Við fáum samt færi og Þórður varði vel.“

Ólafur sagði að hann hefði átt að bregðast fyrr við til þess að koma í veg fyrir að Brandur fengi seinna gula spjaldið.

„Ég tek þetta á mig. Ég hefði átt að taka hann út af fyrr. Mér fannst vera taktur í þessa átt. Þetta var smá nuddbrot fyrra gula spjaldið, hárrétt. Ég sendi mann út að hita en ég var að vona að hann myndi ekki fara í annað eða þriðja brotið.“

Hvað er það besta sem hann tekur úr leiknum? „Stigið er fínt.“

„Við gerðum það sem við töluðum um í hálfleik, það er alltaf eitthvað gott að taka,“ sagði Ólafur Kristjánsson.

vísir/vilhelm
Sölvi: Fannst við rændir marki

„Alls ekki sáttur með stigið. Við eigum að klára svona leik þar sem við erum einum manni fleiri allan seinni hálfleikinn. Við erum mjög svekktir að tapa þessum tveimur stigum,“ sagði Sölvi Geir í leikslok.

Víkingar byrjuðu seinni hálfleikinn af nokkrum krafti en eftir það var ekki mikið að frétta í sóknarleik þeirra og átti FH hættulegri færi þegar líða tók á leikinn.

„Það er það sem ég er svekktur með, að við skildum ekki hafa nýtt seinni hálfleikinn betur.“

„Betri færi, ég veit það nú ekki alveg. Mér finnst að við vorum rændir marki þarna í seinni hálfleik, ég sé ekki hvað hann er að dæma á dómarinn, eitthvað hefur hann séð dómarinn.“

„Vissulega sáttur með frammistöðuna hjá liðinu, svona mest megnis, þó að mér finnst að við hefðum átt að vera ákafari í seinni hálfleik.“

Eftir fyrstu tvær umferðirnar er Víkingur með tvö stig eftir leiki við Val og FH. Fyrir fram hefði lið sem var spáð fallbaráttu af flestum, líklega verið sátt með þá útkomu?

„Við erum ekki sáttir. Okkur finnst eins og við eigum að vera með sex stig eftir þessa tvo leiki. Við hefðum viljað fá meira, svekktir, en við erum búnir að sýna góða frammistöðu og það er margt sem við getum byggt ofan á.“

„Þrjú stig hljóta að fara að detta inn hjá okkur,“ sagði Sölvi Geir Ottesen.

Þórður Ingason ver frá Jónatan Inga Jónssynivísir/vilhelm
Guðmundur: Fannst bara annað liðið skapa færi

„Að lenda marki undir og manni undir í fyrri hálfleik, þá vissulega er fínt að ná að jafna og fá stig. Hins vegar fannst mér bara annað liðið skapa færi í dag og að því leitinu til er þetta svolítið svekkjandi,“ sagði Guðmundur Kristjánsson sem bar fyrirliðaband FH í dag.

„Mér fannst þeir ekki skapa mikið, mér fannst við skapa færi en hefðum mátt klára þau betur. Þegar við lendum manni undir þá finnst mér við halda skipulaginu vel.“

„Mér fannst við spila góðan seinni hálfleik, mér fannst við ekki alveg ná að halda nógu góðu floti í fyrri hálfleik, en mér fannst þetta gott hjá okkur.“

Fannst honum gulu spjöldin sem Brandur fékk á sig hafa verið harður dómur?

„Ég ætla ekki að þykjast hafa eitthvað vit af dómgæslu. Alltaf þegar ég er að kvarta þá segja menn að ég viti ekkert um þetta,“ sagði Guðmundur Kristjánsson.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira