Blikarnir fara í lautarferð í Árbæinn á föstudagskvöldið í stað þess að fá Víkinga í heimsókn sín í Smárann.
Knattspyrnusamband Íslands hefur tilkynnt um breytingar á einum leik í Pepsi Max deild karla og tveimur í Pepsi Max deild kvenna vegna framkvæmda á Kópavogsvelli.
Verið er að setja gervigras á Kópavogsvöllinn og hann er ekki enn þá tilbúinn.
Leikur Breiðabliks og Víkings í karladeildinni hefur verið færður fram um einn dag og á annan völl. Þá hefur leikjum Breiðabliks og Keflavíkur í kvennadeildinni verið víxlað.
Blikar spilar því einn af ellefu heimaleikjum sínum í Pepsi Max deild karla í sumar utan Kópavogs.
Leikur Breiðabliks og Víkings í 3. umferð Pepsi Max deild karla hefur verið færður af laugardeginum fram á föstudagskvöldið. Hann fer líka fram á Würth vellinum í Árbæ sem er heimavöllur Fylkismanna.
Blikar spilar því tvo leiki á Fylkisvellinum í sumar því þeir mæta Fylkismönnum á vellinum í 8. umferð, 14. júní næstkomandi.
Víkingar gátu ekki skipt um leikvöll við Blika því þeir eru eins og Blikar að bíða eftir að sinn gervigrasvöllur verði tilbúinn í Víkinni. Fyrsti heimaleikur Víkinga var á móti FH í gær og fór hann fram á gervigrasvelli Þróttara í Laugardalnum.
Vegna framkvæmda á Kópavogsvelli hefur eftirfarandi leikjum verið breytt:
Pepsi Max deild karla
Breiðablik – Víkingur R
Var: Laugardaginn 11. maí kl. 14.00 á Kópavogsvelli
Verður: Föstudaginn 10. maí kl. 20.00 á Würth vellinum
Jafnframt er neðangreindum heimaleikjum í Pepsi Max deild kvenna víxlað:
Pepsi Max deild kvenna
Breiðablik – Keflavík
Var: Mánudaginn 13. maí kl. 19.15 á Kópavogsvelli
Verður: Mánudaginn 13. maí kl. 19.15 á Nettóvellinum
(Leikurinn heitir því Keflavík – Breiðablik)
Pepsi Max deild kvenna
Keflavík - Breiðablik
Var: Laugardaginn 27. júlí kl. 14.00 á Nettóvellinum
Verður: Laugardaginn 27. júlí kl. 14.00 á Kópavogsvelli
(Leikurinn heitir því Breiðablik - Keflavík)
