Fótbolti

Mourinho hrósaði Klopp í hástert: „Liverpool er spegilmynd af persónuleika hans“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Klopp er búinn að koma Liverpool í úrslit Meistaradeildar Evrópu annað árið í röð.
Klopp er búinn að koma Liverpool í úrslit Meistaradeildar Evrópu annað árið í röð. vísir/getty
José Mourinho hrósaði Liverpool, og þá sérstaklega knattspyrnustjóra liðsins, Jürgen Klopp, í hástert eftir sigurinn ótrúlega á Barcelona í Meistaradeild Evrópu í gær. Eftir að hafa tapað fyrri leiknum, 3-0, vann Liverpool 4-0 sigur í þeim seinni í gær og tryggði sér sæti í úrslitaleik keppninnar annað árið í röð.

„Ég bjóst ekki við þessu en sagði að ekkert væri ómögulegt og að Anfield væri einn af þeim stöðum þar sem hið ómögulega gæti orðið mögulegt,“ sagði Mourinho sem var í hlutverki álitsgjafa hjá beIN Sports.

„Fyrir mér hefur þessi endurkoma eitt nafn: Jürgen. Þetta snerist ekki um taktík eða heimsspeki heldur hjarta og sál og þetta frábæra samband sem hann hefur myndað við leikmenn Liverpool.“

Mourinho gat ekki annað en hrifist af Liverpool-liðinu í leiknum í gær og segir að Klopp hafi sett mark sitt á það svo um munar.

„Þeir áttu á hættu að standa allslausir eftir frábært tímabil en núna eru þeir einu skrefi frá því að verða Evrópumeistarar. Jürgen á þetta skilið því hann hefur unnið frábært starf fyrir Liverpool,“ sagði Mourinho.

„Þetta snýst um hann. Þetta lið er spegilmynd af persónuleika hans, baráttuvilja og allir leikmenn gefa allt sem þeir eiga. Þeir skæla ekki þótt leikmenn vanti eða þeir þurfi að spila 50 eða 60 leiki á tímabili eins og aðrir stjórar í öðrum deildum gera.“



Mourinho hefur verið í fríi frá þjálfun síðan honum var sagt upp hjá Manchester United eftir 3-1 tap fyrir Liverpool skömmu fyrir jól.

Portúgalinn ætlar sér aftur í þjálfun og hefur m.a. verið orðaður við Skotlandsmeistara Celtic.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×