Erlent

Grínisti næsti forseti Úkraínu

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Næsti forseti Úkraínu, Vólódómír Selenskíj.
Næsti forseti Úkraínu, Vólódómír Selenskíj. Jaap Arriens/Getty
Úkraínski grínistinn Vólódómír Selenskíj virðist vera búinn að tryggja sér forsetstól Úkraínu ef marka má útgönguspár. Selenskíj atti kappi við Petró Pórósjenkó, núverandi forseta landsins.

Samkvæmt útgönguspám renna yfir 70% atkvæða til Selenskíj, sem vann einnig stóran sigur í fyrri umferð kosninganna, þar sem 39 frambjóðendur voru á kjörseðlinum.

Hinn fráfarandi Pórósjenkó hefur viðurkennt ósigur en segist þó ekki ætla að hverfa af sviði stjórnmálanna í heimalandi sínu.

Selenskíj býr sig nú undir að taka við embætti forseta, en það er nokkuð valdamikil staða í Úkraínu. Forsetinn hefur mikið að segja um öryggis- og varnarmál, auk þess sem hann á stóran þátt í að skapa utanríkisstefnu landsins. Forsetinn er kosinn til fimm ára í senn.

Selenskíj ávarpaði stuðningsmenn sína eftir að sigurinn varð ljós og sagðist hann ekki ætla að bregðast þeim.

Grínistinn er þjóðþekktur fyrir leik sinn í gamanþáttum þar sem persóna hans álpast fyrir slysni í forsetastól í Úkraínu.


Tengdar fréttir

Grínistinn efstur í Úkraínu

Útgönguspár bentu til þess að grínistinn Volodymyr Zelenskiy hefði fengið flest atkvæði í fyrri umferð úkraínsku forsetakosninganna sem fram fór í gær.

Forsetaframbjóðendur í lyfjapróf fyrir kappræður

Forseti Úkraínu, Petró Pórósjenkó varð við kröfu mótframbjóðanda síns, Vólódímírs Selenskíj, um að gangast undir áfengis- og lyfjapróf fyrir kappræður forsetaframbjóðendanna tveggja sem munu fara fram á Ólympíuleikvanginum í Kænugarði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×