Íslenski boltinn

Jóhannes Karl: Ætlum að berjast í efri hlutanum

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Jóhannes Karl er á leið inn í sitt fyrsta tímabil sem þjálfari í efstu deild.
Jóhannes Karl er á leið inn í sitt fyrsta tímabil sem þjálfari í efstu deild. vísir/anton

Nýliðum ÍA var spáð 6. sæti í árlegri spá fyrirliða, þjálfara og forráðamanna liðanna í Pepsi Max-deild karla. Spáin var opinberuð á kynningarfundi deildarinnar í dag.

„Ég er virkilega ánægður með þessa spá. Ég held að þetta sýni að við séum að gera hluti á spennandi hátt. Við höfum staðið okkur vel á undirbúningstímabilinu og ég held að það endurspeglist í þessari spá. Hún helst líka í hendur við aðrar spár sem hafa komið á undan, þannig að þetta kemur okkur ekkert sérstaklega mikið á óvart,“ sagði Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari ÍA, í samtali við Vísi eftir að spáin var birt.

„Auðvitað erum við ánægðir með þetta þar sem við erum nýliðar. Oft er talað um að munurinn á efstu og næstefstu deild sé mikill en við komum inn í mótið eftir gott undirbúningstímabil. Við höfum mikla trú á því sem við erum að gera.“

Jóhannes Karl fer ekkert leynt með að hann ætlar að koma ÍA aftur í röð bestu liða landsdins.

„Þetta er þokkaleg spá og menn hafa greinilega trú á okkur. En það er ekki þar með sagt að við getum ekki endað ofar. Við höfum trú á þessu en auðvitað getur það tekið tíma fyrir lið eins og ÍA að festa sig í sessi í efstu deild. Við horfum upp á við og ætlum að berjast í efri hluta deildarinnar,“ sagði Jóhannes Karl.

„Við erum afar stoltir af okkar árangri og höfum unnið marga titla í gegnum árin. Stefnan er að koma ÍA aftur í fremstu röð og þá þýðir ekki að vera með neina minnimáttarkennd.“

ÍA tekur á móti KA í 1. umferð Pepsi Max-deildarinnar á laugardaginn kemur.


Tengdar fréttir

Val spáð Íslandsmeistaratitlinum

Valsmenn verða Íslandsmeistarar ef hin árlega spá fyrirliða, þjálfara og forráðamanna liðanna í Pepsi Max-deild karla rætist.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.