Erlent

Maria Butina dæmd til átján mánaða fangelsisvistar

Samúel Karl Ólason skrifar
Maria Butina.
Maria Butina. Vísir/AP
Maria Butina, sem játaði sig seka um samsæri og starfa sem útsendari erlends ríkis í Bandaríkjunum, hefur verið dæmd til 18 mánaða fangelsisvistar. Hún var handtekin í júlí í fyrra og játaði að hafa safnað upplýsingum um samtök íhaldsmanna á vegum Alexander Torshin, rússnesks fyrrverandi þingmanns, fyrir og eftir forsetakosningarnar 2016.



Þá er Butina sögð hafa reynt að opna hulda samskiptaleið á milli Bandaríkjanna og rússneskra embættismanna. Aðgerðir hennar beindust að mestu gegn Samtökum byssueigenda í Bandaríkjunum (NRA). Þar að auki umgekkst hún forsetaframbjóðendur og þingmenn úr röðum Repúblikana.

Alexander Torshin, sem er fyrrverandi þingmaður og starfar nú sem einn af æðstu mönnum Seðlabanka Rússlands og er sagður tengjast leyniþjónustum landsins sem og skipulagðri glæpastarfsemi, auk þess að vera náinn bandamaður Vladimir Pútín, forseta Rússlands.

Í ákærunni gegn henni er vísað til ýmissa samskipta Butina og Torshin þar sem hún meðal annars sagðist tilbúin til að taka við frekari skipunum og Torshin sagðist ekki vilja ræða við hana í síma af ótta við að símtalið yrði hlerað. Þá voru þau að velta vöngum yfir því hver yrði utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Þau ræddu einnig saman um að bandarískir fjölmiðlar mættu ekki komast á snoðir um aðgerðir þeirra.

Sá tími sem hún hefur þegar varið í fangelsi verður dreginn frá refsingu hennar og eftir að fangelsisvist hennar líkur verður Butina vikið frá Bandaríkjunum. Dómarinn í máli hennar sagði hana fá þunga refsingu vegna alvarleika brota hennar og í fordæmisskyni.

Lögmenn hennar höfðu farið fram á að hún yrði ekki dæmd til frekari fangelsisvistar.

Sjálf sagðist Butina skammast sín fyrir aðgerðir sínar, samkvæmt AP fréttaveitunni. Hún sagðist vera með þrjár háskólagráður en nú væri hún dæmdur brotamaður með enga vinnu og enga peninga. Hún baðst afsökunar á gjörðum sínum.


Tengdar fréttir

Rússar vilja Butina lausa

Sergei Lavron, utanríkisráðherra Rússlands, segir ásakanirnar gegn henni vera tilbúning.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×