Erlent

Rússar vilja Butina lausa

Samúel Karl Ólason skrifar
Maria Butina.
Maria Butina. Vísir/AP

Sergei Lavron, utanríkisráðherra Rússlands, krafðist þess við Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, að Mariu Butina yrði sleppt úr haldi í Bandaríkjunum. Lavrov sagði ásakanirnar gegn henni vera tilbúning og það væri óásættanlegt að hún væri í haldi. Hún hefur verið handtekin fyrir njósnir í Bandaríkjunum og að vera útsendari rússneska ríkisins.

Maria Butina, einnig Mariia, var handtekin á sunnudaginn og á miðvikudaginn úrskurðaði dómari að hún skyldi sitja í fangelsi þar til réttað yrði yfir henni. Þá sögðu saksóknarar að hún tengdist leyniþjónustum Rússlands og hún gæti flúið úr landi.

Saksóknarar segja hana hafa reynt að lauma sér inni í stjórnmálafylkingar, þar á meðal Hagsmunasamtök bandarískra byssueigenda, NRA, fyrir og eftir forsetakosningarnar 2016. Þá er Butina sögð hafa reynt að opna hulda samskiptaleið á milli Bandaríkjanna og rússneskra embættismanna.

Butina er sögð hafa unnið á vegum embættismannsins og auðjöfursins Alexander Torshin, sem er fyrrverandi þingmaður og starfar nú sem einn af æðstu mönnum Seðlabanka Rússlands og er sagður tengjast leyniþjónustum landsins sem og skipulagðri glæpastarfsemi, auk þess að vera náinn bandamaður Vladimir Pútín, forseta Rússlands.

Í ákærunni gegn henni er vísað til ýmissa samskipta Butina og Torshin þar sem hún meðal annars sagðist tilbúin til að taka við frekari skipunum og Torshin sagðist ekki vilja ræða við hana í síma af ótta við að símtalið yrði hlerað. Þá voru þau að velta vöngum yfir því hver yrði utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Þau ræddu einnig saman um að bandarískir fjölmiðlar mættu ekki komast á snoðir um aðgerðir þeirra.

Sjá einnig: Rússnesk kona handtekin fyrir að ganga erinda Rússa í Bandaríkjunum

Butina hefur neitað sök.

Rannsakendur Alríkislögreglu Bandaríkjanna, FBI, hafa á undanförnum misserum unnið að því að kanna hvort yfirvöld Rússlands hafi notað NRA og önnur samtök íhaldsmanna til að veita fjármunum til framboðs Donald Trump. Slíkt er ólöglegt í Bandaríkjunum.

NRA varði um 30 milljónum dala til stuðnings Trump í aðdraganda kosninganna, sem er þrefalt það sem samtökin vörðu til stuðnings framboðs Mitt Romney árið 2012.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.