Íslenski boltinn

Rúnar Páll: Aðdragandinn algjör þvæla

Guðlaugur Valgeirsson skrifar
Rúnar Páll klappar fyrir stuðningsmönnum Stjörnunnar eftir leikinn í kvöld.
Rúnar Páll klappar fyrir stuðningsmönnum Stjörnunnar eftir leikinn í kvöld. VÍSIR/DANÍEL
Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar, var svekktur eftir jafntefli sinna manna gegn KR í fyrstu umferð Pepsi Max-deildarinnar í kvöld.

„Mjög svekkjandi niðurstaða miðað við hvernig leikurinn þróaðist og hvernig færaskiptingin var í þessum leik. Við erum með algjöra yfirburði í þessum leik, í bæði fyrri og seinni hálfleik. Við vorum óheppnir að skora ekki fleiri mörk.”

„Við fáum á okkur ódýrt mark þar að segja aðdragandinn að því, en það er bara svoleiðis. KR fékk ekki mörg færi í þessum leik og þetta er svekkjandi.”

Rúnar sagðist ekki vera viss með vítið sem Stjarnan fékk á sig en hann var ósáttur með aukaspyrnuna sem þeir fengu á sig sem vítið kom síðan upp úr.

„Mér skilst að þetta hafi verið brot hjá Jóa (Jóhann Laxdal) en aðdragandinn að vítinu þar sem Brynjar Gauti fær dæmda á sig aukaspyrnu er algjör þvæla og það skóp þetta mark.”

Hann sagði að það hefði verið gífurlega erfitt að sækja á KR liðið í seinni hálfleiknum en þeir voru mjög þéttir fyrir og gáfu fá færi á sér.

„Það er bara mjög erfitt að spila gegn svona þéttri vörn. Við reyndum hvað við gátum, fyrirgjafir og langa bolta í gegn en þeir voru bara hrikalega þéttir og Beitir gerði vel fyrir þá. Því miður vantaði herslumuninn í kvöld.”

Rúnar sagði að lokum að þetta væri gífurlega svekkjandi miðað við stöðuna í hálfleik þrátt fyrir að þetta sé einungis fyrsta umferð í deildinni.

„Já þetta er gífurlega svekkjandi sérstaklega miðað við það hvað aðdragandinn var ódýr fyrir KR-ingana. KR fékk ekkert annað í þessum leik fyrir utan þetta víti. Fá gefins aukaspyrnu sem skapar vítið sem er rosalega dýrt fyrir okkur,” sagði Rúnar Páll að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×