Íslenski boltinn

Langt síðan að Fylkir og ÍA byrjuðu svona vel og þá brostu menn um haustið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Haraldur Ingólfsson (annar frá hægri) fer fyrir fögnuði Skagamanna þegar Íslandsmeistarabikarninn var tryggður sumarið 1996.
Haraldur Ingólfsson (annar frá hægri) fer fyrir fögnuði Skagamanna þegar Íslandsmeistarabikarninn var tryggður sumarið 1996. Vísir/BG
Lið Fylkismanna og Skagamanna sitja í tveimur efstu sætunum eftir fyrstu umferð Pepsi Max deildar karla sem lauk um helgina.

Bæði liðin unnu þá flotta sigra, Fylkir vann 3-0 sigur á ÍBV í Eyjum en ÍA vann 3-1 heimasigur á KA.

Þetta er stærsti sigur Fylkismanna í fyrstu umferð í efstu deild síðan í maí 2002 þegar liðið vann 3-0 útisigur á FH-ingum í fyrsta leik. Fylkir varð bikarmeistari um haustið og endaði í öðru sæti í deildinni. Það er besta tímabil félagsins frá upphafi en árið á undan varð liðið líka bikarmeistari en endaði um miðja deild.

Skagamenn hafa ekki byrjað sumarið á tveggja marka sigri í efstu deild síðan í maímánuði 1996 þegar liðið vann 3-1 sigur á Stjörnunni. Hinn sautján ára gamli Bjarni Guðjónsson skoraði þá tvívegis áður en Haraldur Ingólfsson innsiglaði sigurinn. Skagamenn urðu síðan tvöfaldir meistarar haustið 1996.

Tryggvi Hrafn Haraldsson, sonur Haraldar, skoraði tvö af mörkum Skagamanna um helgina. Það seinna skoraði hann beint úr aukaspyrnu en faðir hans skoraði beint úr aukaspyrnu í fyrstu umferðinni tvö ár í röð fyrir að verða þrjátíu árum eða sumrin 1992 og 1993.

ÍA-liðið var enn fremur aðeins að vinna sinn þriðja sigur í fyrstu umferð á síðustu fjórtán tímabilum félagsins í efstu deild. Skagamenn unnu einnig sinn fyrsta leik sumrin 2012 (1-0 á Breiðabliki) og 2005 (1-0 sigur á Þrótti). Síðustu fjögur tímabil á undan þessu höfðu Skagamenn aftur mótið byrjað Íslandsmótið á tapi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×