Íslenski boltinn

Pepsi Max-mörkin: „Ætti að vera kennt í öðrum eða þriðja flokki“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Til vinstri er þar sem varnarveggur KA var og til hægri þar sem hann átti að vera.
Til vinstri er þar sem varnarveggur KA var og til hægri þar sem hann átti að vera. mynd/skjáskot
Tryggvi Hrafn Haraldsson skoraði þriðja mark ÍA í 3-1 sigrinum á KA í 1. umferð Pepsi Max-deildar karla á laugardaginn með skoti beint úr aukaspyrnu.

Hinn ungi markvörður KA, Aron Dagur Birnuson, stillti varnarveggnum ansi furðulega upp og eftirleikurinn var auðveldur fyrir Tryggva.

„Ég sá að hann stillti veggnum skringilega upp. Það var glufa hægra megin við hann og nýtti mér það,“ sagði Tryggvi eftir leik.

Varnarveggur KA var til umræðu Pepsi Max-mörkunum í gær. Þar fóru sérfræðingar þáttarins, þeir Reynir Leósson og Þorkell Máni Pétursson, yfir hvar veggurinn hefði átt að vera.

„Við viljum hafa vegginn þarna,“ sagði Reynir og benti á að veggurinn hefði átt að vera tveimur metrum lengra til vinstri. „Þetta er ótrúlegt að þetta grunnatriði sé ekki í lagi í meistaraflokki. Þetta var glórulaust.“

Máni tók í sama streng og velti fyrir sér hlutverki markvarðaþjálfara KA.

„Er þetta ekki atriði sem markvarðaþjálfari ætti að vera búinn að kenna í öðrum eða þriðja flokki. Það er skrítið að sjá þetta í Pepsi Max-deildinni,“ sagði Máni.

„Við viljum ekki taka strákinn algjörlega af lífi,“ sagði Reynir. „En þetta er dýrt. Þetta er grunnatriði. Stilltu veggnum rétt upp og komdu í veg fyrir þetta.“

Innslagið má sjá hér fyrir neðan.

Klippa: Pepsi Max-mörkin: Skrítinn varnarveggur KA

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×