Enski boltinn

Elton John á tónleika sama dag og bikarúrslitaleikurinn fer fram

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Syngiði með! Elton John í miðri sveiflu.
Syngiði með! Elton John í miðri sveiflu. vísir/getty
Sir Elton John gat ekki leynt gleði sinni eftir að Watford tryggði sér sæti í úrslitaleik ensku bikarkeppninnar með dramatískum sigri á Wolves, 3-2, á Wembley á sunnudaginn.

Elton John er án nokkurs vafa þekktasti stuðningsmaður Watford. Tónlistarmaðurinn vinsæli er reyndar meira en venjulegur stuðningsmaður því hann var eigandi Watford á árunum 1976-87 og 1997-2002 og er núna heiðursforseti félagsins.

Watford mætir Manchester City í bikarúrslitum 18. maí. Þann sama dag á Elton John að spila á tónleikum í Kaupmannahöfn. Þeir eru hluti af þriggja ára kveðjutónleikaröð hans, Farewell Yellow Brick Road.

Bikarúrslitaleikurinn hefst klukkan 14:00 og tónleikarnir 20:00. Stóra spurningin er hvað Elton John gerir en hann vill væntanlega ekki missa af stærsta leik Watford í 35 ár, eða síðan liðið komst í bikarúrslit 1984.

Elton John var eigandi Watford á mesta blómaskeiði félagsins, þegar það vann sig upp úr neðstu deild í þá efstu undir stjórn Grahams Taylor. Watford endaði í 2. sæti efstu deildar tímabilið 1982-83 og komst í bikarúrslit tímabilið á eftir. Þar tapaði Watford fyrir Everton, 2-0.

Elton John seldi Watford 1987 en keypti félagið aftur tíu árum síðar. Árið 2014 var stúka á Vicarage Road, heimavelli Watford, nefnd eftir honum.

Maí verður viðburðarríkur hjá Elton John en í síðustu viku mánaðarins verður kvikmynd byggð á ævi hans, Rocketman, frumsýnd. Taron Egerton fer með hlutverk tónlistamannsins í myndinni. Hún verður frumsýnd 24. maí í Bretlandi og 31. maí í Bandaríkjunum.

Elton John réði Graham Taylor sem knattspyrnustjóra Watford 1977. Þá var félagið í neðstu deild. Fimm árum síðar var Watford komið upp í efstu deild.vísir/getty

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×