Enski boltinn

Elton John á tónleika sama dag og bikarúrslitaleikurinn fer fram

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Syngiði með! Elton John í miðri sveiflu.
Syngiði með! Elton John í miðri sveiflu. vísir/getty

Sir Elton John gat ekki leynt gleði sinni eftir að Watford tryggði sér sæti í úrslitaleik ensku bikarkeppninnar með dramatískum sigri á Wolves, 3-2, á Wembley á sunnudaginn.

Elton John er án nokkurs vafa þekktasti stuðningsmaður Watford. Tónlistarmaðurinn vinsæli er reyndar meira en venjulegur stuðningsmaður því hann var eigandi Watford á árunum 1976-87 og 1997-2002 og er núna heiðursforseti félagsins.

Watford mætir Manchester City í bikarúrslitum 18. maí. Þann sama dag á Elton John að spila á tónleikum í Kaupmannahöfn. Þeir eru hluti af þriggja ára kveðjutónleikaröð hans, Farewell Yellow Brick Road.

Bikarúrslitaleikurinn hefst klukkan 14:00 og tónleikarnir 20:00. Stóra spurningin er hvað Elton John gerir en hann vill væntanlega ekki missa af stærsta leik Watford í 35 ár, eða síðan liðið komst í bikarúrslit 1984.

Elton John var eigandi Watford á mesta blómaskeiði félagsins, þegar það vann sig upp úr neðstu deild í þá efstu undir stjórn Grahams Taylor. Watford endaði í 2. sæti efstu deildar tímabilið 1982-83 og komst í bikarúrslit tímabilið á eftir. Þar tapaði Watford fyrir Everton, 2-0.

Elton John seldi Watford 1987 en keypti félagið aftur tíu árum síðar. Árið 2014 var stúka á Vicarage Road, heimavelli Watford, nefnd eftir honum.

Maí verður viðburðarríkur hjá Elton John en í síðustu viku mánaðarins verður kvikmynd byggð á ævi hans, Rocketman, frumsýnd. Taron Egerton fer með hlutverk tónlistamannsins í myndinni. Hún verður frumsýnd 24. maí í Bretlandi og 31. maí í Bandaríkjunum.

Elton John réði Graham Taylor sem knattspyrnustjóra Watford 1977. Þá var félagið í neðstu deild. Fimm árum síðar var Watford komið upp í efstu deild. vísir/getty

Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.