Enski boltinn

Verður Herrera áfram hjá United eftir allt saman?

Anton Ingi Leifsson skrifar
Herrera í leik með United.
Herrera í leik með United. vísir/getty
Ole Gunnar Solskjær, stjóri Manchester United, segir að Ander Herrera og Manchester United séu enn í viðræðum um nýjan samning og ekki sé útilokað að hann verði áfram hjá félaginu.

Spánverjinn rennur út af samningi hjá United í sumar og hann hefur verið mikið orðaður burt frá félaginu. Sky Sports greindi frá því fyrr í mánuðinum að Herrera hefði nú þegar samið við PSG.

Hann sagði í viðtali að hann og United væru ekki að tala sama tungumál hvað varðar nýjan samning en hann hefur mátt ræða við önnur félag frá fyrsta janúar síðastliðnum.

„Þú verður að spurja hann,“ sagði Solskjær aðspurður um hvort Herrera verði áfram. „Ég veit ekki hvernig síðustu viðræður hafa verið. Hann verður að ná sér af meiðslunum því hann elskar að spila. Hann er ekki ánægður þegar hann getur ekki hjálpað samherjum sínum.“

„Hann hefur verið að leggja mikið á sig að koma til baka frá meiðslum sem hann varð fyrir gegn Liverpool. Því miður komu meiðslin á tímanum þegar samningaviðræðurnar stóðu yfir en þær eru enn í gangi.“

Herrera hefur ekki spilað með United síðan 30. mars er honum var skipt af velli í síðari hálfleik vegna meiðsla. United vann þann leik 2-1 gegn Watford en liðið er í mikilli baráttu um Meistaradeildarsæti.

„Ég get ekki sagt hversu langt viðræðurnar eru komnar eða hvað hann ákveði. Hann hefur alltaf gefið allt sitt og það skiptir ekki máli hvort hann eigi fimm vikur eða fimm ár eftir af samningi sínum,“ sagði Norðmaðurinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×