Erlent

Morðið á Kim Jong-nam: Víet­nömsku konunni sleppt í næsta mánuði

Atli Ísleifsson skrifar
Doan Thi-Huong er þrítug að aldri.
Doan Thi-Huong er þrítug að aldri. Getty
Doan Thi-Huong, víetnömsk kona sem grunuð var um aðild á morðinu á Kim Jong-nam, hálfbróður einræðisherra Norður-Kóreu árið 2017, verður brátt frjáls ferða sinna. Lögmaður Doan segir að henni verði sleppt úr malasísku fangelsi þriðja dag næsta mánaðar.

Doan, sem er þrítug og starfaði áður á hárgreiðslustofu, var handtekin í febrúar 2017 eftir að öryggismyndavélagar á alþjóðaflugvellinum í malasísku höfuðborginni Kúala Lúmpúr sýndu hvernig hún í félagi við aðra konu hélt vasaklút vættum einhverjum vökva fyrir vitum Kim Jong-nam.

Konurnar lýstu því yfir í yfirheyrslu hjá lögreglu að þær töldu sig hafa verið að taka þátt í sjónvarpshrekk og hafa þær ætíð neitað sök. Er talið að norður-kóreskir leyniþjónustumenn hafi platað þær til verksins og komið taugagasinu VX fyrir í klútnum sem leiddi svo til dauða Kim. 

Hefðu konurnar verið dæmdar fyrir morð hefðu þær hlotið dauðadóm, en eftir þrýsting víetnamskra yfirvalda var ákveðið að falla frá ákærum. Viðurkenndi Doan Thi-Huong þessi í stað að hafa valdið öðrum manni tjóni og var hún dæmd í þriggja ára og fjögurra mánaða fangelsi. Henni verður nú sleppt fyrr vegna góðrar hegðunar.

Greint var frá því í síðasta mánuði að hinni konunni, Siti Aisyah frá Indónesíu, hafi verið sleppt úr malasísku fangelsi eftir að ákveðið var að falla frá ákæru.

Norður-Kóreustjórn hefur hafnað því að hafa borið ábyrgð á árásinni. Kim Jong-nam var í litlu sambandi við fjölskyldu sína og bjó lengi vel erlendis, í Kína, Singapúr og á eyjunni Makaó.


Tengdar fréttir

Konu sem sökuð er um að hafa myrt Kim sleppt á næstunni

Doan Thi Huong, sem sökuð er að hafa myrt Kim Jong-nam, hálfbróður Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu, á flugvellinum í Kúala Lumpur árið 2017 hefur játað vægara brot en hún var upprunalega ákærð fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×