Erlent

Drónamyndir varpa ljósi á gríðarlegar skemmdir

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Götin í kirkjunni eru gríðarstór.
Götin í kirkjunni eru gríðarstór. Skjáskot/Youtube
Myndbönd sem tekin eru upp á dróna sýna gríðarlega eyðileggingu sem hlaust af eldsvoðanum í Notre Dame-dómirkjunni í París. Feiknastór göt eru á kirkjunni, einkum þar sem þak hennar og spíra féllu saman.

Komið hefur fram að yfirvöld leggi nú áherslu á að finna bresti í burðarvirki kirkjunnar, sem gætu hafa orðið til í eldsvoðanum í fyrradag, og tryggja þá.

Þegar hafa rannsakendur borið kennsl á veika punkta í byggingunni, til að mynda í einu þverskipi kirkjunnar og í kirkjuskipinu sjálfu. Þá eru þrjú stór göt á byggingunni: Eitt þar sem spíran brotnaði af, annað í þverskipinu og hið þriðja í hvelfingu þess. Þá urðu viðarbitar í þakinu eldinum að bráð og steypuhvelfing sem hélt þakinu uppi féll saman.

Myndband, tekið úr lofti, sem breska dagblaðið Guardian birti á vef sínum í dag sýnir skemmdirnar vel. Myndbandið má sjá hér að neðan.

Í dag var svo greint frá því að yfirvöld munu bjóða arkitektum víða um heim að senda inn tillögur að hönnun á nýrri spíru fyrir kirkjuna. Eldsupptök eru enn ókunn en rannsókn brunans stendur yfir.


Tengdar fréttir

Stórt og flókið verkefni bíður Frakka

Miklu fé hefur verið heitið til enduruppbyggingar Notre Dame eftir brunann á mánudag. Sérfræðingar frá Páfagarði og arkitektar sem endurreistu Windsor-kastala bjóða aðstoð sína. Þrívíddarskannanir til af kirkjunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×