Erlent

Kalla eftir tillögum að nýrri spíru frá arkitektum heimsbyggðarinnar

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Spíran varð eldinum að bráð.
Spíran varð eldinum að bráð. AP/Thierry Mallet
Frönsk yfirvöld munu bjóða arkitektum víða um heim að senda inn tillögur að hönnun á nýrri spíru fyrir Notre Dame dómkirkjuna. Eldri spíran varð eldinum sem geysaði í kirkjunni á mánudaginn að bráð. BBC greinir frá.

Eduourde Philippe, forsætisráðherra Frakklands, tilkynnti þetta í dag, og sagði hann vonir standa til að nýja spíran myndi verða tímanna tákn.

Eldri spíran gjöreyðilagðist í eldinum sem olli miklum skemmdum á hinni 850 ára gömlu kirkju. Talið er að afar litlu hafi mátt muna að kirkjan öll yrði eldinum að bráð en slökkviliðsmönnum tókst engu að síður að koma í veg fyrir að tjónið yrði meira en raun bar vitni.

Spíran sem eyðilagðist var reist á nítjándu öld þegar og velti Phillipe því upp hvort endurskapa ætti spíruna í sömu mynd, eða hvort hanna ætti nýja spíru.

Emmanuel Macron hefur heitið því að það muni aðeins taka fimm ár að endurbyggja þá hluta sem eyðilögðust í bálinu, sérfræðingar telja þó að slík vinna geti tekið áratugi. Um 800 milljónum evra, um 108 milljörðum króna, hefur verið heitið í viðgerðirnar.

Eldsupptök eru enn ókunn en rannsókn brunans stendur yfir. Þrjátíu verkamenn hjá fimm byggingafyrirtækjum, sem höfðu umsjón með viðgerðum á Notre Dame kirkjunni í París þegar eldur kviknaði, hafa verið yfirheyrðir vegna málsins. Búist er við að rannsókn á eldsupptökum muni taka langan tíma.


Tengdar fréttir

Stórt og flókið verkefni bíður Frakka

Miklu fé hefur verið heitið til enduruppbyggingar Notre Dame eftir brunann á mánudag. Sérfræðingar frá Páfagarði og arkitektar sem endurreistu Windsor-kastala bjóða aðstoð sína. Þrívíddarskannanir til af kirkjunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×