Erlent

Ljóst að Imamoglu mun stýra Istanbúl

Atli Ísleifsson skrifar
Ekrem Imamoglu er næsti borgarstjóri Istanbúl.
Ekrem Imamoglu er næsti borgarstjóri Istanbúl. Getty
Ekrem Imamoglu, fulltrúi tyrkneska stjórnarandstöðuflokksins CHP, verður næsti borgarstjóri Istanbúl, fjölmennustu borgar Tyrklands.

Þetta varð ljóst eftir endurtalningu á greiddum atkvæðum í Istanbúl, en sveitarstjórnarkosningar fóru fram í landinu þann 31. mars síðastliðinn. Ríkisfjölmiðlinn Anatolia greindi frá niðurstöðunni fyrr í dag og vísaði þar í þingmann CHP.

Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti hafði áður farið fram á endurtalningu atkvæða þar sem mjótt var á munum milli fulltrúa CHP og fulltrúa stjórnarflokksins AKP þegar lokatölur bárust. Erdogan hefur einnig sagt að hann muni einungis viðurkenna úrslitin þegar kjörstjórn landsins hefur staðfest þau.

Sveitarstjórnarkosningarnar reyndust um margt erfiðar fyrir Erdogan og flokksmenn hans þar sem þeir misstu meðal annars stjórnina í höfuðborginni Ankara og fjölmennustu borg landsins, Istanbúl.

Erdogan var borgarstjóri í Istanbúl á árunum 1994 til 1998. Hann hefur verið valdamesti maður Tyrklands frá árinu 2003 – fyrst sem forsætisráðherra og svo sem forseti.


Tengdar fréttir

Erdogan vill endurtalningu í Istanbúl

Forseti Tyrklands, Receep Tayyip Erdogan og flokkur hans AK, hefur óskað eftir því að atkvæði sem greidd voru í sveitastjórnarkosningunum í Istanbúl fyrir viku síðan verði talin að nýju.

Krefjast nýrra kosninga eftir valdatap

Raceep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, og flokkur hans AK, mun krefjast þess að kosið verði að nýju í Istanbúl sagði fulltrúi flokksins eftir að krafa hans um endurtalningu atkvæða í borginni var hafnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×