Erlent

Ræddu ítrekað um efni Mueller-skýrslunnar við Hvíta húsið

Kjartan Kjartansson skrifar
Hvíta húsið er með forskot á aðra um niðurstöður Mueller-rannsóknarinnar.
Hvíta húsið er með forskot á aðra um niðurstöður Mueller-rannsóknarinnar. Vísir/Getty
Embættismenn bandaríska dómsmálaráðuneytisins hafa ítrekað rætt við ráðgjafa Donalds Trump Bandaríkjaforseta í Hvíta húsinu um efni Mueller-skýrslunnar sem verður gerð opinber á morgun. Viðræðurnar eru sagðar hafa auðveldað Trump og bandamönnum hans að leggja drög að viðbrögðum sínum við henni.

New York Times hefur eftir heimildarmönnum sínum að lögmenn Hvíta hússins hafi nokkrum sinnum rætt við starfsmenn dómsmálaráðuneytisins um niðurstöður Roberts Mueller, sérstaka rannsakandans sem rannsakaði afskipti Rússa af forsetakosningunum árið 2016, meint samráð framboðs Trump við þá og meintar tilraunir forsetans til þess að hindra framgang réttvísinnar.

William Barr, dómsmálaráðherra, ætlar að birta skýrsluna á morgun eftir blaðamannafund sem hann ætlar að halda klukkan 9:30 að staðartíma í Washington-borg, klukkan 13:30 að íslenskum tíma. Tímasetning fundarins hefur verið gagnrýnd þar sem að blaðamenn muni ekki fá færi á að kynna sér efni skýrslunnar og móta spurningar um það fyrir fundinn.

Þegar Barr kom fyrir þingnefnd í síðustu viku neitaði hann að svara spurningum þingmanna um hvort að ráðuneyti hans hefði gefið Hvíta húsinu forsmekk af niðurstöðum Mueller.

Eina sem vitað er um niðurstöður Mueller fram að þessu er fjögurra blaðsíðna bréf sem Barr ritaði Bandaríkjaþingi 22. mars. Þar sagði hann Mueller ekki hafa sýnt fram á að framboð Trump hefði lagt á ráðin með Rússum um að hafa áhrif á forsetakosningarnar. Þá hafi Mueller ekki tekið afstöðu til þess hvort Trump hefði hindrað framgang réttvísinnar en hann gæti ekki hreinsað forsetann af sök.

Barr tilkynnti hins vegar á sama tíma að hann hefði ákveðið að ekki væri ástæða til þess að ákæra Trump fyrir að hindra framgang réttvísinnar.


Tengdar fréttir

Mueller-skýrslan kemur almenningi fyrir sjónir á fimmtudag

William Barr, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, mun birta Mueller-skýrsluna svokölluðu á fimmtudagsmorgun að bandarískum tíma. Demókratar hafa kallað eftir því að skýrslan verði gerði opinber en búið verður að má út viðkvæmar upplýsingar fyrir birtingu skýrslunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×