Erlent

Önnur kona sakar Biden um óviðeigandi snertingu

Kjartan Kjartansson skrifar
Biden hefur fram að þessu verið talinn líklegur til að verða forsetaframbjóðandi demókrata.
Biden hefur fram að þessu verið talinn líklegur til að verða forsetaframbjóðandi demókrata. Vísir/EPA
Fyrrverandi aðstoðarkona þingmanns segir að Joe Biden, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna, hafi snert sig á óviðeigandi hátt á fjáröflunarsamkomu árið 2009. Hún er önnur konan á fáum dögum sem sakar Biden um óviðeigandi hegðun. Biden hefur verið talinn einna líklegastur til að verða forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins á næsta ári.

Konan segir að snerting Biden hafi ekki verið kynferðisleg en að hann hafi tekið um höfuð hennar á viðburðinum sem var haldinn í Connecticut.

„Hann lagði hendurnar utan um hálsinn á mér og togaði mig að sér til að nudda saman nefjum. Þegar hann togaði mig að sér hélt ég að hann ætlaði að kyssa mig á munninn,“ segir Amy Lappos við staðarblað í Connecticut, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Upphaflega sagði Lappos frá atvikinu í Facebook-hóp í umræðum um frásögn Lucy Flores, fyrrverandi ríkisþingkonu frá Nevada, um atvik með Biden sem lét henni líða óþægilega á kosningafundi árið 2014. Hún lýsti því hvernig Biden hefði kysst hana aftan á höfðið gegn vilja hennar.

„Það eru algerlega siðsemismörk. Það eru virðingarmörk. Að fara yfir þau mörk er ekki afalegt. Það er ekki menningarlegt. Það er ekki ástúð. Það er karlremba eða kvenhatur,“ segir Lappos.

Talsmaður Biden tjáði sig ekki um frásögn Lappos við Reuters og vísaði aðeins til yfirlýsingar Biden frá því á sunnudag. Í henni sagðist varaforsetinn fyrrverandi ekki telja að hann hefði nokkru sinni hagað sér á óviðeigandi hátt.

Biden hefur mælst með einna mestan stuðning í skoðanakönnunum yfir líklega forsetaframbjóðendur demókrata. Hann hefur ekki lýst yfir framboði í forvali þeirra en líklegt hefur verið talið að hann gerði það.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×