Íslenski boltinn

Segir Víking skulda sér laun: „Þeir hunsa mig bara“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Castillion í leik með Víking
Castillion í leik með Víking vísir/Anton
Sóknarmaðurinn Geoffrey Castillion er að leita sér að nýju félagi og vill rifta samningi sínum við FH. Þá segir hann Víking R. skulda sér pening. Þetta sagði hann í viðtali við Fótbolta.net.

Castillion kom til Víkings sumarið 2017 og setti 11 mörk í 16 leikjum í Pepsideildinni. Hann fór svo til FH fyrir síðasta tímabil en náði sér ekki á strik í Hafnarfirði svo hann var lánaður aftur til Víkings síðari hluta síðasta sumars.

Framherjinn er enn samningsbundinn FH en hefur ekki æft með liðinu síðustu misseri. Á dögunum sagði Ólafur Kristjánsson, þjálfari FH, að óljóst væri hvort hann verði með liðinu í sumar.

Castillion er heima í Hollandi og er í viðræðum við FH um að rifta samningnum.

„Ég fór frá FH í nokkra daga í janúar. Svo sagði þjálfarinn við mig að ég gæti farið því að ég væri ekki í plönum hans fyrir tímabilið. Það væri betra fyrir mig að leita að öðru félagi,“ sagði Hollendingurinn við Fótbolta.net.

Hann vill samt ekki snúa aftur í Fossvoginn, þar sem hann hefur gert það gott, því Víkingur skuldi honum pening.

„Þeir skulda mér pening, þeir eiga eftir að greiða mér laun fyrir tvo mánuði. Ég hef reynt að ræða við þá, en þeir hunsa mig bara.“

„Mér ekki sýnd virðing hjá Víkingi og þess vegna vil ég ekki lengur spila fyrir þá.“

Castillion spilaði alls 37 meistaraflokksleiki á Íslandi og skoraði í þeim 18 mörk. Það er ólíklegt að það bætist við þær tölur úr þessu þar sem framherjinn virðist ætla að leita til annara landa.

Pepsi Max deildin hefst í lok þessa mánaðar á leik Vals og Víkings á Hlíðarenda föstudagskvöldið 26. apríl. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×