Enski boltinn

Pogba og De Gea sagðir á förum í sumar

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Margar af helstu stjörnum Old Trafford eru sagðar að vilja yfirgefa Manchester
Margar af helstu stjörnum Old Trafford eru sagðar að vilja yfirgefa Manchester vísir/getty
Það gæti orðið svo að Ole Gunnar Solskjær mæti með algjörlega nýtt Manchester United lið til leiks á næsta tímabili en sífellt fleiri fréttir berast af því að byrjunarliðsmenn vilji frá félaginu.

Ander Herrera á að vera búinn að semja við PSG, Juan Mata er sagður á förum og umboðsmaður Romelu Lukaku sagði hann vilja prófa að spila í fleiri löndum.

Í dag greinir breska blaðið The Times frá því að Paul Pogba og David de Gea ætli sér að yfirgefa Manchester í sumar.

Pogba sagði á dögunum að það væri draumur hvers leikmanns að spila fyrir Real Madrid og Zinedine Zidane, stjóri Real, sagði Pogba vera „leikmann sem kemur með eitthvað inn á völlinn sem fáir aðrir geta.“

De Gea hefur ítrekað verið orðaður við Real Madrid og þá eiga bæði Paris Saint-Germain og Juventus að hafa sýnt honum áhuga.

Markvörðurinn er óánægður með trega forráðamanna United til þess að hækka laun hans, þrátt fyrir það að de Gea hafi verið yfirburðamaður í liði United síðustu ár og sé einn af bestu markmönnum heims.

Eftir níu mánuði getur De Gea farið að semja við lið, sem gæti orðið til þess að United neyðist til þess að selja Spánverjann í sumar svo liðið fái einhvern pening fyrir hann.

Þá eru Eric Bailly og Alexis Sanchez einnig sagðir vilja burt, Bailly er óánægður með lítinn spilatíma undir stjórn Solskjær og Sanchez er sagður sjá eftir því að hafa farið til United frekar en Manchester City í janúar á síðasta ári.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×