Erlent

Íranar svara í sömu mynt

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Donald Trump Bandaríkja­forseti.
Donald Trump Bandaríkja­forseti. Vísir/Getty
Donald Trump Bandaríkjaforseti ákvað í gær að flokka skyldi byltingarvarðasveitir íranska hersins sem hryðjuverkasamtök. Þetta er í fyrsta sinn, samkvæmt Reuters, sem Bandaríkin flokka her annars sjálfstæðs ríkis á þannig. Áður voru tugir hópa og einstaklinga innan sveitarinnar á svörtum lista.

„Ef þú stundar viðskipti við byltingarvarðasveitirnar ert þú að fjármagna hryðjuverkastarfsemi,“ sagði í tilkynningu frá forsetanum.

Sveitirnar voru stofnaðar stuttu eftir írönsku byltinguna árið 1979. Þær eiga að standa vörð um stjórnkerfi landsins og veita hinum hefðbundna her ríkisins aðhald. Samkvæmt BBC eru sveitirnar nátengdar æðstaklerknum Ali Khamenei og öðrum valdamönnum. Sveitirnar eru einnig veigamiklar í írönsku viðskiptalífi og halda utan um stór styrktar­félög.

Íranskir þingmenn samþykktu í síðustu viku, þegar fjölmiðlar fjölluðu fyrst um að von væri á þessari ákvörðun Trumps, að svara í sömu mynt. Seyed Jawad Sadatinejad, einn þingmanna, sagði við ríkisfréttastofuna FARS á laugardag að málið væri hið heimskulegasta.

Ef Íran svaraði í sömu mynt gætu bandarískir hermenn á svæðinu verið litnir sömu augum og liðsmenn ISIS og al-Kaída.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×