Erlent

Ár síðan vikuleg mótmæli hófust við landamæri Gasa og Ísrael

Hallgerður Kolbrún E Jónsdóttir skrifar
Þúsundir mótmælenda safnast saman við landamæri Gasa og Ísrael.
Þúsundir mótmælenda safnast saman við landamæri Gasa og Ísrael. Getty/Lior Mizrahi
Tugir þúsunda Palestínumanna komu saman á Gasaströndinni í gær og mótmæltu í vikulegum mótmælum við landamærin að Ísrael, en mótmælin mörkuðu árs afmæli mótmælanna, en þau hófust þann 30. mars 2018.

Mótmælendur brenndu dekk og köstuðu steinum, sem ísraelska varnarliðið, IDF, svaraði með kúlnaregni og táragasi. Tveir mótmælendur létu lífið samkvæmt palestínskum yfirvöldum, sem báðir voru 17 ára gamlir piltar, og sá þriðji lést í nótt, en tugir særðust.

Mótmælendur krefjast þess að palestínskir flóttamenn geti snúið aftur til heimalands síns, sem nú er á valdi Ísraelsríkis.

Að minnsta kosti 189 Palestínumenn og einn ísraelskur hermaður hafa látið lífið í tengslum við mótmælin frá því í mars og þar til í desember 2018, samkvæmt Sameinuðu þjóðunum. Rannsóknarnefnd á vegum Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna hefur komist að því að af þeim 189 sem látist hafa hafi 35 verið börn, þrír merktir sjúkraliðar og tveir merktir fréttamenn. 

Ísraelska varnarliðið sagði að minnsta kosti 40.000 mótmælendur hafa safnast saman, en nokkur þúsund ísraelskra hermanna voru sendir að landamærunum. Mótmælin hafa verið studd af  Hamas samtökunum sem nú fara með stjórn Gasa en þau hafa lýst því yfir að þau myndu reyna að halda mótmælendum í öruggri fjarlægð frá landamæramúrnum.

Sáttasemjarar frá Sameinuðu þjóðunum og Egyptalandi hafa reynt að koma í veg fyrir að mótmælin  stigmagnist en mótmælin voru eldheit vegna árása Ísraels á Gasa svæðið í liðinni viku, eftir að Palestínskar hersveitir skutu flaugum inn á landsvæði Ísrael. Fregnir hafa borist frá Palestínu um að Egypskir sáttasemjarar séu á góðri leið með að ná fram samkomulagi um vopnahlé á milli Palestínu og Ísrael.


Tengdar fréttir

Umfangsmiklar árásir í Ísrael og á Gasa

Hernaðaryfirvöld Ísrael segjast hafa gert loftárárásir á um hundrað skotmörk á Gasa-ströndinni í nótt. Það var gert eftir að Hamas-liðar skutu um 370 flugskeytum að Ísrael í gær.

Ísraelskar sprengjur féllu við almenningsgarð í Gaza

Að minnsta kosti tveir unglingspiltar, 15 og 16 ára gamlir, létu lífið í loftárásum Ísraelsmanna á Gaza svæðið í gær. Árásirnar voru þær umfangsmestu sem Ísraelsmenn hafa gert frá því Gaza var að stórum hluta lagt í rúst árið 2014.

Stillt til friðar á Gasa

Ísrael og Hamas hafa samið um vopnahlé með aðstoð Egypta og Sameinuðu þjóðanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×