Erlent

Rændi og kveikti í skóla­r­útu á Ítalíu

Atli Ísleifsson skrifar
Börnin stunda nám í skóla í Vailati di Crema, austur af Mílanó.
Börnin stunda nám í skóla í Vailati di Crema, austur af Mílanó. EPA/DANIELE BENNATI
Lögregla í Mílanó á Ítalíu hefur handtekið 47 ára rútubílstjóra eftir að hann rændi rútu með 51 nemanda um borð, og kveikti síðar í henni.

Börnin, sem sum hver höfðu verið bundin, komust öll lífs af eftir að lögreglu tókst að koma þeim út úr rútunni um glugga aftarlega í rútunni. Í frétt BBC segir að fjórtán hafi verið fluttir á sjúkrahús vegna gruns um reykeitrun.

Bílstjórinn er ítalskur ríkisborgari af senegölskum uppruna. „Enginn mun lifa af,“ á maðurinn að hafa hrópað.

Einn kennara barnanna, sem var um borð í rútunni, segir að hinn grunaði hafi verið mjög óánægður með harða stefnu ítalskra stjórnvalda þegar kemur að málefnum flóttafólks og hælisleitenda.

Kraftaverk

Francesco Greco, saksóknari í Mílanó, segir það kraftaverk að ekki hafi farið verr, þar sem þetta hefði getað endað með blóðbaði.

Bílstjóranum hafði verið ætlað að keyra börnin, sem voru úr tveimur bekkjum, frá skóla í Vailati di Crema, austur af Mílanó, í líkamsræktarstöð. Hann ók rútunni hins vegar aðra leið og í átt að Linate-flugvellinum í Mílanó.

Hringdi í móður sína

Þegar maðurinn byrjaði að hóta börnunum með hníf hringdi einn nemandanna í móður sína sem tilkynnti svo málið til lögreglu. Lögreglu tókst að lokum að stöðva rútuna og koma börnunum úr um glugga aftarlega í rútunni þar sem búið var að brjóta glerið. Bílstjórinn hafði þá hellt niður bensíni, kveikti að lokum í rútunni og varð hún alelda á svipstundu.

Matteo Salvini, innanríkisráðherra Ítalíu, brast ókvæða við þegar hann var spurður út í málið og sagði gerandann vera með sakaferil að baki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×