Enski boltinn

Þrír menn dæmdir í fangelsi fyrir að streyma enska boltanum ólöglega

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson fagnar marki í ensku úrvalsdeildinni.
Gylfi Þór Sigurðsson fagnar marki í ensku úrvalsdeildinni. Getty/Clive Brunskill
Þrír breskir menn eru á leiðinni í fangelsi eftir að þeir voru fundnir sekir um að selja aðgang að ólöglegu streymi á leiki í ensku úrvalsdeildinni.

Mennirnir heita Steven King, Paul Rolston og Daniel Malon og fengu þeir samtals sautján ára dóm. Þetta eru margir af hörðustu dómum sem hafa fallið fyrir að stela og dreifa sjónvarpsefni á netinu.

Talið er að þessir þrír hafi grætt meira en fimm milljónir punda á sölu sinni á þessu stolna efni en þeir seldu krám og einstaklingum aðgang að leikjum ensku úrvalsdeildarinnar. Fimm milljónir punda eru um 780 milljónir í íslenskum krónum.





Mennirnir voru allir fundnir sekir eftir fjögurra vikna málaferli í Warwick Crown dómstólnum. Dómarinn dæmdi þá í lengra fangelsi fyrir það eitt að hafa reynt markvisst að koma í veg fyrir rannsókn á ólöglegri starfsemi þeirra.

Hinn 51 árs gamli Steven King var dæmdur í sjö ára og fjögurra mánaða fangesli.

Hinn 54 ára gamli Paul Rolston var dæmdur í sex ára og fjögurra mánaða fangelsi.

Hinn 42 ára gamli Daniel Malone fékk þriggja ára og þriggja mánaða fangelsisdóm.

Efninu var dreift undir merkjum Dreambox (unincorporated), Dreambox TV Limited og Digital Switchover Limited.





Þetta er vissulega tímamótadómur og sýnir að baráttan gegn stolnu sjónvarpsefni og ólöglegu niðurhali í Bretlandi er komin upp á næsta stig.

„Skilaboðin eru skýr. Þú ferð í fangelsi ef þú fremur glæpi sem þessa,“ sagði Kieron Sharp, framkvæmdastjóri Fact, sem eru samtök sem berjast gegn ólöglegu niðurhali í Bretlandi. Hann var þarna í viðtali í þættinum Newsbeat á Radio 1.

„Þetta snýst um að borga fyrir efni sem við njótum öll að horfa á og viljum öll horfa á. Fótboltinn er á þessum stað í dag vegna þeirra peninga sem hafa verið settir í þessa vöru á síðustu árum. Ef menn fá ekki peninga til baka frá þeim sem horfa þá munum við ekki fá að horfa á fótboltann eða aðra viðburði í framtíðinni,“ sagði Sharp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×