Enski boltinn

Lukaku heldur áfram að skjóta púðurskotum á móti bestu liðunum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Romelu Lukaku skorar ekkert á móti þeim bestu.
Romelu Lukaku skorar ekkert á móti þeim bestu. vísir/getty
Manchester United tókst ekki að koma boltanum í netið á móti Arsenal í gær þegar að Skytturnar lögðu Ole Gunnar Solskjær og félaga í stórleik í baráttunni um Meistaradeildarsæti, 2-0.

United-menn horfðu væntanlega til Romelu Lukaku þegar kom að markaskorun enda var Belginn stóri búinn að vera á miklum skriði og skora tvö mörk í leik í síðustu þremur leikjum í röð í deild og Meistaradeild.

Lukaku fékk svo sannarlega færi til að skora en tókst það ekki frekar en svo oft áður þegar að hann spilar á móti einum af hinum fimm bestu liðum deildarinnar (City, Liverpool, Tottenham, Chelsea og Arsenal) í ensku úrvalsdeildinni.

Belganum er hreinlega fyrirmunað að skora á móti bestu liðunum í deildinni en svo tekur hann þau slakari og raðar inn mörkum nánast að vild þegar að hann er í stuði.

Lukaku er nú búinn að spila átta leiki á móti bestu liðum deildarinnar á þessu tímabili. Hann er búinn að byrja sex af þessum átta leikjum og spila í heildina 527 mínútur án þess að koma boltanum í netið.

Á móti restinni af deildinni er Lukaku búinn að spila 1.257 mínútur í 19 leikjum og skora tólf mörk en það gerir mark á 104 mínútna fresti. Eina stoðsendingin hans á tímabilinu í deildinni kom reyndar í 3-1 tapi gegn Manchester City fyrir áramót.

Þessi tölfræði ætti ekki að koma neinum á óvart því Lukaku hefur gengið illa allan ferilinn að skora á móti bestu liðum ensku deildarinnar. Í fyrra spilaði hann til dæmis tíu leiki á móti stóru liðunum og skoraði eitt mark á 860 mínútum.

Manchester United á eftir tvo leiki gegn toppliðunum áður en tímabilið er búið en það á eftir að taka á móti Manchester City og Chelsea á Old Trafford.

Romelu Lukaku skaut í slá af markteig í gær.vísir/getty
Leikir United og Lukaku á móti bestu liðunum í vetur:

27. ágú: Man. Utd - Tottenham 0-0

Lukaku spilaði allan leikinn

20. okt: Chelsea - Man. Utd 2-2

Lukaku spilaði allan leikinn

11. nóv: Man. City - Man. Utd 3-1

Lukaku spilaði 33 mínútur

5. des: Arsenal - Man. Utd 2-2

Lukaku spilaði 27 mínútur

16. des: Liverpool - Man. Utd 3-1

Lukaku spilaði 90 mínútur

13. jan: Tottenham - Man. Utd 0-2

Lukaku spilaði 17 mínútur

24. feb: Man. Utd - Liverpool 0-0

Lukaku spilaði 90 mínútur

10. mar: Arsenal - Man. Utd 2-0

Lukaku spilaði 90 mínútur

Lukaku á móti topp sex:

Átta leikir, 527 mínútur og ekkert mark

Lukaku á móti restinni af deildinni:

19 leikir, 1.257 mínútur og 12 mörk (mark á 104 mínútna fresti)

Lukaku í fyrra á móti top sex:

10 leikir, 860 mínútur og eitt mark


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×