Erlent

Dómarar snúa baki við hinum heilsu­veila Bou­teflika

Atli Ísleifsson skrifar
Tugþúsundir hafa haldið út á götur Algeirsborgar og fleiri borga síðustu daga til að mótmæla Bouteflika og stjórn hans.
Tugþúsundir hafa haldið út á götur Algeirsborgar og fleiri borga síðustu daga til að mótmæla Bouteflika og stjórn hans. Getty
Á annað þúsund alsírskra dómara segjast ekki ætla að taka þátt í eftirliti með fyrirhuguðum kosningum í landinu, bjóði forsetinn Abdelaziz Bouteflika sig fram til endurkjörs.

Tilkynning dómaranna kemur á sama tíma og fjölmenn mótmæli eiga sér stað í landinu. Tugþúsundir hafa haldið út á götur Algeirsborgar og fleiri borga síðustu daga til að mótmæla Bouteflika og stjórn hans.

Mótmælin blossuðu upp eftir að hinn 82 ára forseti tilkynnti að hann myndi sækjast eftir endurkjöri í kosningunum sem fram fara 18. apríl. Bouteflika hefur gegnt embætti forseta Alsírs frá árinu 1999 og er alkunna að hann er mjög heilsuveill. Hann hlaut heilablóðfall árið 2013 og hélt hélt síðast opinbert ávarp árið 2014 þegar hann þakkaði stuðningsmönnum sínum fyrir endurkjörið.

Abdelaziz Bouteflika árið 2015.Getty
Bouteflika sneri aftur til Alsírs í gær eftir að hafa gengist undir læknismeðferð í Sviss síðustu vikur.

Fjölmargir samflokksmenn Bouteflika á alsírska þinginu hafa gengið til liðs við mótmælendur og hafa vísbendingar komið fram um að herinn muni ekki bregðast sérstaklega við vegna mótmælaöldunnar.

Stjórnarandstaðan í landinu, sem hefur verið sundruð um árabil, heldur því fram að Bouteflika sé ekki í neinu standi til að stýra landinu og sé hann frekar orðinn strengjabrúða fámennrar valdaklíku í landinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×