Erlent

Verður fyrsta konan til að gegna em­bætti for­sætis­ráð­herra Eist­lands

Atli Ísleifsson skrifar
Hin 41 árs Kaja Kallas átti sæti á Evrópuþinginu á árunum 2014 til 2018.
Hin 41 árs Kaja Kallas átti sæti á Evrópuþinginu á árunum 2014 til 2018. AP
Umbótaflokkurinn, sem setið hefur í stjórnarandstöðu síðustu ár, vann sigur í eistnesku þingkosningunum sem fram fóru í gær. Flokkurinn, sem er hægra megin við miðju, hlaut 29 prósent atkvæða, en Miðflokkurinn, sem leitt hefur ríkisstjórn síðustu ár, hlaut 23 prósent.

Kaja Kallas, fyrrverandi Evrópuþingmaður, leiðir Umbótaflokkinn og stefnir allt í að hún verði fyrsta konan til að gegna embætti forsætisráðherra Eistlands.

Íhaldssami þjóðarflokkur Eistlands (EKRE), var þriðji, hlaut tæp 18 prósent og tvöfaldaði fylgi sitt, en hann hefur barist fyrir því að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Eistlands innan Evrópusambandsins. Kallas hefur sagst reiðubúin að starfa með öllum flokkum, að frátöldum EKRE.

Í frétt BBC segir að nærri fjórðungur atkvæðisbærra manna hafi greitt atkvæði á netinu. Alls voru 881 þúsund manns á kjörskrá.

Umbótaflokkurinn og Miðflokkurinn hafa skipst á að fara með völd í landinu frá því að landið lýsti yfir sjálfstæði frá Sovétríkjunum. Flokkarnir styðja báðir áframhaldandi aðild Eistlands að ESB og NATO.

Ekki er útilokað að Umbótaflokkurinn og Miðflokkurinn muni mynda saman ríkisstjórn, þó að Kallas hafi bent á að flokkarnir hafi ólíka sýn á skattamál, menntamál og borgaramál.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×