Innlent

Miðbakkinn verður opið almannarými

Ari Brynjólfsson skrifar
Kristín Soffía mælti fyrir tillögu meirihlutans.
Kristín Soffía mælti fyrir tillögu meirihlutans. Vísir/stefán

„Ég veit ekki hvernig Miðbakkinn verður í framtíðinni, við leggjum áherslu á að þarna verði eitthvað fyrir fjölskyldur, eitthvað ókeypis. Ég sé þetta fyrir mér sem torg í biðstöðu næstu árin á meðan við erum að kynnast svæðinu,“ segir Kristín Soffía Jónsdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar og stjórnarformaður Faxaflóahafna, í samtali við Fréttablaðið.

Borgarstjórn samþykkti einróma í vikunni tillögu um að Reykjavíkurborg fari í samstarf með Faxaflóahöfnum um að endurheimta Miðbakkann sem almannarými. Í dag eru þar bílastæði.

„Við erum með beiðni um samstarf frá Boxinu-matarmarkaði. Það eru hugmyndir uppi um brettagarð, boltavöll, mögulegt samstarf við Listasafn Reykjavíkur. Í núverandi skipulagi er gert ráð fyrir móttökuhúsi fyrir skemmtiferðaskipin, það gæti verið fjölnota hús,“ segir Kristín Soffía.

„Núna fer af stað dans milli hafnar, borgar og borgarbúa. Þetta er stórt svæði og við þurfum að sjá hvað virkar.“

Endurheimt Miðbakkans mun ekki hafa áhrif á kaup malasíska fasteignarisans Berjaya Land Berhad á Geirsgötu 11.

„Það er til skipulagslýsing fyrir svæðið frá 2017 sem gerir ráð fyrir mjög takmarkaðri uppbyggingu. Við höfum fengið nokkrar fyrirspurnir um þá fasteign, í grunninn er það eina sem má gera að endurbyggja hús með flötu þaki.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.