Erlent

Vísa þýska sendiherranum frá Venesúela

Gunnar Reynir Valþórsson og Kjartan Kjartansson skrifa
Kriener sendiherra (t.h.) með Juan Guaidó þegar sá síðarnefndi hitti evrópska sendiherra um miðjan febrúar.
Kriener sendiherra (t.h.) með Juan Guaidó þegar sá síðarnefndi hitti evrópska sendiherra um miðjan febrúar. Vísir/EPA
Stjórnvöld í Venesúela gáfu sendiherra Þýskalands í landinu fjörutíu og átta klukkustundir til að koma sér úr landi. Daniel Kriener var á meðal þeirra diplómata sem aðstoðuðu stjórnarandstæðinginn Juan Guaidó við að komast aftur til landsins eftir ferðalag hans um Suður Ameríku þar sem hann aflaði málstað sínum fylgis, en hann hefur lýst sig réttmætan forseta landsins og sakar Nicolas Maduro forseta um valdarán.

Þjóðverjar eru á meðal þeirra ríkja sem hafa viðurkennt Guaídó og tilkall hans til forsetaembættisins og með því að aðstoða hann við að komast inn í landið að nýju segja yfirvöld í Venesúela að Þjóðverjar séu að skipta sér af innanríkismálum landsins.

Í yfirlýsingu frá ríkisstjórninni í gær voru Kriener gefnar 48 klukkustundir til að hafa sig á brott. Sakaði hún sendiherrann jafnframt um að hafa tekið sér stöðu með „öfgahlutum“ stjórnarandstöðunnar í landinu.

Heiko Maas, utanríkisráðherra Þýskalands, sagði í gær að hann hefði ákveðið að kalla Kriener heim til skrafs og ráðagerðar. Fordæmdi hann ákvörðun stjórnvalda í Caracas sem hann sagði óskiljanlega og hjálpaði ekki til við að draga úr spennu.

„Stuðningur okkar og Evrópu við Juan Guidó stendur heill. Kriener sendiherra stendur sig prýðilega í Caracas, þar á meðal undanfarna daga,“ sagði Maas í yfirlýsingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×