Erlent

Ísland fordæmdi morðið á Khashoggi í yfirlýsingu um Sádi-Arabíu

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá fundarsal mannréttindaráðsins í Genf í Sviss.
Frá fundarsal mannréttindaráðsins í Genf í Sviss. Vísir/EPA

Fastafulltrúi Íslands í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna flutti sameiginlegt ávarp 36 ríkja í ráðinu um stöðu mannréttinda í Sádi-Arabíu á fundi þess í dag. Fordæmdu ríkin morðið á Jamal Khashoggi og hvatti stjórnvöld í Ríad til að sleppa mannréttindabaráttufólki sem hefur verið handtekið í landinu undanfarið.

Harald Aspelund, fastafulltrúi Íslands, las upp yfirlýsinguna þegar ráðið ræddi um skýrslu mannréttindastjóra Sameinuðu þjóðanna á ellefta tímanum í dag. Lýsti hann verulegum áhyggjum ríkjanna af gerræðislegum handtökum og varðhaldi á baráttufólki fyrir mannréttindum, ekki síst kvennréttindasinnum. Hvatti hann sádiarabísk stjórnvöld til að sleppa öllum sem þau hefðu í haldi. Lýsti hann einnig sérstökum áhyggjum af því að Sádar beittu ákvæðum hryðjuverkalaga til að bæla niður andóf í landinu.

Fordæmdi hann morðið á Khashoggi, sádiarabíska blaðamanninum, sem Sádar viðurkenna að hafi verið drepinn á ræðisskrifstofu þeirra í Tyrklandi í október. Dauði hans væri tilefni til að minnast mikilvægi þess að verja blaðamenn og tjáningarfrelsi í heiminum. Hvatti hann Sáda til þess að veita allar upplýsingar um morðið til þeirra sem rannsaka það, þar á meðal sérstökum sendifulltrúa Sameinuðu þjóðanna.

„Þeir seku verða að vera dregnir til ábyrgðar,“ sagði Harald.

Krafði fulltrúi Íslands Sáda einnig um að grípa til aðgerða til að tryggja að allir, bæði mannréttindabaráttufólk og blaðamenn, gætu neytt frelsis síns til tjáningar án ótta við refsiaðgerðir.

Auk Íslands stóðu Ástralía, Austurríki, Belgía, Búlgaría, Kanada, Króatía, Tékkland, Kýpur, Danmörk, Eistland, Finnland, Frakkland, Þýskaland, Grikkland, Ungverjaland, Írland, Ítalía, Lettland, Liechtenstein, Litháen, Lúxemborg, Malta, Mónakó, Svartfjallaland, Holland, Nýja-Sjáland, Noregur, Pólland, Portúgal, Rúmenía, Slóvakí, Slóvenía, Spánn, Svíþjóð og Bretland að yfirlýsingunni.


Tengdar fréttir

Ísland hefur frumkvæði að ákúrum gegn Sádum

Í sameiginlegri yfirlýsingu ætla Evrópuríki að frumkvæði Íslands að hvetja Sáda til að sleppa kvennréttindasinnum og vinna með rannsakendum SÞ á morðinu á Jamal Khashoggi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×