Erlent

Kim mættur til Víetnam fyrir fundinn með Trump

Kjartan Kjartansson skrifar
Kim stígur úr brynvörðum lestarvagni sínum við komuna til Hanoi í morgun.
Kim stígur úr brynvörðum lestarvagni sínum við komuna til Hanoi í morgun. Vísir/EPA
Undirbúningur fyrir leiðtogafund Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu, og Donalds Trump Bandaríkjaforseta er nú í hámæli. Kim mætti til Víetnam með lest í morgun og Trump er væntanlegur síðar í dag. Fyrsti fundur þeirra verður á morgun.

Kim steig út úr lest sinni í Hanoi klukkan 8:22 að staðartíma í morgun. Hann hafði þá ferðast um 4.000 kílómetra leið frá Pjongjang í alls 65 klukkustundir, að sögn Washington Post. Víetnamskir embættismenn tóku á móti leiðtoganum unga sem fékk heiðursvörð á lestarstöðinni. Þar steig Kim upp í Mercedes-eðalvagn sem tólf lífverðir fylgdu á hlaupum.

Búist er við Trump með flugi til Víetnam um klukkan 21:00 að staðartíma, klukkan 14:00 að íslenskum tíma.

Trump og Kim munu funda undir fjögur augu annað kvöld. Að því loknu verður kvöldverður þar sem tveir gestir og túlkar fylgja hvorum þeirra, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Washington Post segir að með Trump í för verði Mike Pompeo, utanríkisráðherra, og Mick Mulvaney, starfsmannastjóri Hvíta hússins. Annar fundur er fyrirhugaður á fimmtudag.

Átta mánuðir eru liðnir frá því að leiðtogarnir hittust í Singapúr en það var fyrsti fundur sitjandi Bandaríkjaforseta og leiðtoga Norður-Kóreu. Aðalumræðuefni þeirra verður afkjarnavopnun og refsiaðgerðir.


Tengdar fréttir

Óttast að Trump geri slæmt samkomulag til að geta lýst yfir sigri

Sérfræðingar og ráðamenn í Bandaríkjunum að Donald Trump, forseti, muni gera slæmt samkomulag við Kim Jong-Un, einræðisherra Norður-Kóreu, til að geta státað sig af vel heppnuðum samningaviðræðum þeirra þegar þeir hittast í Hanoi í Víetnam á miðvikudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×