Enski boltinn

Spurði Gylfa út í vandamálin hjá Everton, markamet og HM-þreytu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. Vísir/Getty

Gylfi Þór Sigurðsson er í viðtali á Twitter-síðu Stadium Astro þar sem hann fer yfir gang mála hjá Everton liðinu og hvernig HM í Rússlandi í sumar hafði áhrif á hann.

Gylfi og félagar töpuðu á móti Watford um helgina og eru stigalausir í síðustu þremur leikjum sínum í deildinni. Fyrir vikið er Everton dottið niður í 9. til 11. sæti en er efst á markatölu af liðunum þremur sem eru með 33 stig.  

Adam Carruthers hitti Gylfa og ræddi við hann um vandamálin hjá Everton og það sem vantar upp á hjá liðinu.

Þetta leit ágætlega út í nóvember þegar Everton hafði unnið fimm af síðustu sjö leikjum sínum og sat í sjötta sæti deildarinnar. Gylfi skoraði sigurmarkið á móti Cardiff 24. nóvember og hafði þá komið átta mörkum (6 mörk og 2 stoðsendingar) í fyrstu þrettán leikjunum.

Everton hefur hins vegar aðeins unnið þrjá af fjórtán deildarleikjum sínum síðan þá. Gylfi hefur komið að fjórum mörku (3 mörk og 1 stoðsending) í þeim.

Hér fyrir neðan má sjá samtal Adam Carruthers og Gylfa. Þeir ræða þar gengi Everton, HM-þreytu og hvort Gylfi ætli að bæta markametið sitt í ensku deildinni.Gylfi talaði um skort á stöðugleika og að liðið hafi gert of mörg jafntefli í upphafi tímabilsins.

„Nokkur úrslit yfir jólin voru vonbrigði því okkur fannst við hafa gert nóg í nokkrum leikjanna til að hafa náð í fleiri sigra,“ sagði Gylfi.

Adam spurði Gylfa líka út í þreytuna hjá leikmönnum sem þurftu að spila á heimsmeistaramótinu síðasta sumar og fengu því lítið sumarfrí.

„Ég sjálfur finn ekki fyrir þreytu núna. Eftir EM 2016 þá kom ég þreyttur inn í undirbúningstímabilið en mér leið vel í ár. Það eru því engin slík vandamál hjá mér og þetta fer eflaust eftir leikmönnunum sjálfum,“ sagði Gylfi.

Gylfi lofar því líka að bæta markametið sitt á einu tímabili en hann hefur mest skorað ellefu deildarmörk á leiktíð. Gylfi er kominn með níu mörk og fær tólf umferðir til að bæta við þremur mörkum.

„Ég mun bæta það. Þetta eru bara þrjú mörk til viðbótar og ég hef nægan tíma til að bæta það,“ sagði Gylfi.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.