Íslenski boltinn

Willum á leið til Hvíta-Rússlands

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Willum Þór á ferðinni gegn Fjölni í sumar.
Willum Þór á ferðinni gegn Fjölni í sumar. vísir/bára
Breiðablik hefur samþykkt kauptilboð frá hvít-rússneska félaginu Bate Borisov um kaup á miðjumanninum Willum Þór Willumssyni.

Willum heldur út á næstu dögum til þess að skoða aðstæður og semja um persónuleg kjör eftir því sem fram kemur í tilkynningu Breiðabliks.

Willum er fæddur árið 1998. Hann steig sín fyrstu skref í meistaraflokki með Blikum árið 2016 en steig almennilega fram í sviðsljósið síðasta sumar þegar hann skoraði 6 mörk í 19 leikjum í Pepsideildinni.



Fyrir áramót var Breiðablik í viðræðum við Spezia um kaup á Willum. Blikar höfnuðu tveimur kauptilboðum frá ítalska B-deildarliðinu.

Willum var valinn efnilegasti leikmaður Pepsideildarinnar í haust og var hann lykilmaður í því að Blikar enduðu í öðru sæti deildarinnar.

Bate er besta liðið í Hvíta-Rússlandi, er ríkjandi meistari og í efsta sæti deildarinnar eins og er ásamt því að vera sigursælasta félag Hvíta-Rússlands. Liðið hefur verið fastagestur í riðlakeppnum í Evrópukeppni síðustu ár og mætir Arsenal í 32-liða úrslitum Evrópudeildarinnar á fimmtudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×