Erlent

Réttarhöldin sögð vera farsi

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Quim Torra forseti Katalóníuhéraðs.
Quim Torra forseti Katalóníuhéraðs. vísir/getty
Réttarhöldin yfir leiðtogum katalónsku sjálfstæðishreyfingarinnar hófust við hæstarétt Spánar í Madrid í gær. Málið má rekja til sjálfstæðisatkvæðagreiðslu og -yfirlýsingar haustið 2017. Áratuga fangelsisvistar er krafist fyrir meinta uppreisn og uppreisnaráróður.

Verjendur fóru með opnunarorð sín og ræddu einna helst um tvennt. Annars vegar sökuðu þeir spænsk stjórnvöld um mannréttindabrot. Hins vegar kvörtuðu þeir yfir meintri hlutdrægni dómstólsins, sögðu réttarhöldin pólitísk og fóru fram á frestun þar sem verjendur hafa enn ekki fengið öll gögn í hendur.

Quim Torra, forseti Katalóníu, sagði á blaðamannafundi að hann færi fram á að alþjóðlegum samtökum yrði heimilað að stunda eftirlit með hinum „farsakenndu réttarhöldum“. Þeirri beiðni hefur hæstiréttur áður hafnað og sagt nóg að þeim sé sjónvarpað.

„Nú er fyrsta degi réttarhalda, sem aldrei hefðu átt að fara fram, lokið. Það að við séum að horfa upp á kjörna fulltrúa fyrir dómi er árás á lýðræðið,“ sagði Torra.

Torra krafðist þess einnig að Pedro Sanchez forsætisráðherra mætti til alvöru viðræðna til þess að ræða um nýja atkvæðagreiðslu um sjálfstæði. Ellegar gætu katalónskir flokkar ekki stutt fjárlagafrumvarp hans í atkvæðagreiðslu á þinginu í dag. Fái hann ekki þann stuðning er talið að frumvarpið verði fellt og að stjórn sósíalista boði til nýrra kosninga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×