Erlent

Vísindamenn NASA kveðja Opportunity

Samúel Karl Ólason skrifar
Opportunity hefur rannsakað Mars undanfarin fimmtán ár og er langlífasta könnunarfar á yfirborði annars hnattar í sögunni.
Opportunity hefur rannsakað Mars undanfarin fimmtán ár og er langlífasta könnunarfar á yfirborði annars hnattar í sögunni. Vísir/NASA
Vísindamenn Geimvísindastofnunar Bandaríkjanna, NASA, hafa tilkynnt að Marsfarið Opportunity er rafmagnslaust og ómögulegt sé að ná sambandið við farið á nýjan leik. Ekkert hefur spurst til Marsfarsins frá því að samband við það slitnaði í tröllauknum rykstormi síðasta sumar.

Opportunity hefur rannsakað Mars undanfarin fimmtán ár og er langlífasta könnunarfar á yfirborði annars hnattar í sögunni. Upprunalega átti verkefnið að taka einungis 90 daga en vísindamönnum NASA tókst að auka líftíma farsins til muna með því að láta það sofa, ef svo má að orði komast, á næturnar.

Þá var Opportunity hannað til að ferðast um einn kílómetra en það hafði ferðast 45 kílómetra þegar samband við það slitnaði.

Þrátt fyrir að Opportunity hafi verið á Mars í fimmtán ár kom fram á blaðamannafundi NASA í kvöld að rafhlöður farsins halda enn 85 prósentum af virkni þeirra. Einn vísindamaður sagði rafhlöðurnar þær háþróuðustu í sólkerfinu.

Sambandið við könnunarjeppann rofnaði 10. júní. Þá var lítil hleðsla eftir á sólarrafhlöðu jeppans og rykstormurinn lokaði á allt sólarljós. Stormurinn náði þvert yfir reikistjörnuna þegar verst lét. Rúmlega þúsund tilraunir til að ná sambandið við farið á nýjan leik hafa ekki borið árangur og var síðasta tilraunin reynd í gær.

Hér má sjá mynd frá NASA sem sýnir hvernig himinn leit út á Mars þegar rykstormurinn í fyrra var sem verstur. Myndin lengst til vinstri táknar hefðbundinn dag á Mars og myndin lengst til hægri táknar rykstorminn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×