Erlent

Blaðakonunni sem var handtekin sleppt gegn tryggingu

Kjartan Kjartansson skrifar
Ressa var umsetin eftir að henni var sleppt gegn tryggingu í dag.
Ressa var umsetin eftir að henni var sleppt gegn tryggingu í dag. Vísir/EPA
Maríu Ressa, blaðamanni og ritstjóra filippseysku fréttasíðunnar Rappler, var sleppt gegn tryggingu í dag eftir að hún var handtekin á skrifstofu fjölmiðilsins í gær. Yfirvöld saka hana um að hafa brotið gegn lögum um meiðyrði á netinu en gagnrýnendur segja handtökuna tilraun þeirra til að þagga niður í fréttasíðunni sem hefur verið gagnrýnin á ríkisstjórn Rodrigo Duterte forseta.

Eftir lausnina sakaði Ressa yfirvöld um að misnota vald sig og að beita lögum fyrir sig sem vopni, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Hún var látin verja nóttinni í höfuðstöðvum rannsóknarlögreglu ríkisins í gærkvöldi.

„Maður verður að lýsa yfir hneykslun og gera það strax. Fjölmiðlafrelsi snýst ekki bara um blaðamenn, ekki bara um okkur, ekki bara um mig, ekki bara um Rappler. Fjölmiðlafrelsi er grundvöllur alls rétts hvers einasta Filippseyings á sannleikanum,“ sagði Ressa.

Brotið sem Ressa er sökuð um að hafa framið varðar frétt um tengsl athafnamanns við morð, mansal og fíkniefnasmygl sem birtist árið 2012. Lögmaður athafnamannsins heldur því fram að fréttin hafi verið röng og ærumeiðandi.

Duterte forseti hefur ítrekað vegið að Rappler. Hann hefur sakað fréttasíðuna um að vera í raun í eigu Bandaríkjamanna og vera þannig mögulega handbendi bandarísku leyniþjónustunnar CIA. Þá hefur hann kallað Rappler „gervifréttamiðil“ og neitað fréttamönnum þaðan um blaðamannapassa á viðburði hans.

Mannréttindasamtökin Amnesty International hafa sakað ríkisstjórn Duterte um að nota lög í landinu til þess að „ógna blaðamönnum vægðarlaust og áreita þá“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×