Erlent

Biðja nígerísku þjóðina um að halda ró sinni

Birgir Olgeirsson skrifar
Kosningunum var frestað í skjóli nætur.
Kosningunum var frestað í skjóli nætur. Vísir/EPA
Forseti Nígeríu og mótframbjóðandi hans hafa biðlað til þjóðarinnar að halda ró sinni eftir að kosningum þar í landi var frestað um viku aðeins fimm klukkustundum áður en opna átti kjörstaði í morgun.

Þrátt fyrir að hafa sameinast forsetanum í því ákalli hefur mótframbjóðandinn, sem er varaforsetinn fyrrverandi Atiku Abubakar, sakað forsetann Muhammadu Buhari um að bera ábyrgð á töfunum til að útiloka kjósendur.

Það var snemma í morgun sem yfirkjörstjórnin komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri mögulegt að halda frjálsar og sanngjarnar kosningar sökum vandamála tengdum skipulagningu.

Kosningarnar verða haldnar laugardaginn 23. febrúar greint er frá því á vef Reuters að vandamálið hafi tengst vangetu kjörstjórnarinnar til að flytja kjörseðla til nokkurra landshluta.

Buhari, sem hefur verið við völd frá árinu 2015, er sagður fá harða samkeppni frá flokki Atiku.

Í kosningum sem haldnar hafa verið áður í landinu hafa ásakanir um ofbeldi, hótanir og kjörseðlafalsanir og hefur því þessi frestun valdið óróa hjá þjóðinni.

Hafa Atiku og Buhari báðir reynt að afstýra ofbeldisfullum mótmælum með því að biðja fólk um að halda ró sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×