Íslenski boltinn

KA fór illa með níu menn Vals

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Guðjón Pétur er kominn í gult og skoraði gegn sínum gömlu félögum
Guðjón Pétur er kominn í gult og skoraði gegn sínum gömlu félögum vísir/anton brink
KA hafði betur gegn níu leikmönnum Vals þegar liðin mættust í Lengjubikar karla í Boganum á Akureyri.

Þetta var fyrsti leikur beggja liða í Lengjubikarnum þetta árið og byrjaði hann betur fyrir Akureyringa. Guðjón Pétur Lýðsson, sem fór frá Val í KA í vetur, skoraði fyrsta markið úr vítaspyrnu á 38. mínútu og var staðan 1-0 í hálfeik.

Á 57. mínútu leiksins fékk Ólafur Karl Finsen rautt spjald þegar hann fékk sitt seinna gula spjald og aðeins nokkrum mínútum seinna fékk Kaj Leo í Bartalsstovu beint rautt. Valsmenn voru því tveimur leikmönnum færri síðasta tæpa hálftímann.

KA menn nýttu sér liðsmuninn og á 78. mínútu skoraði Ólafur Aron Pétursson eftir sendingu Almars Ormarssonar. Þorri Mar Þórisson skoraði þriðja mark KA stuttu seinna og Torfi Tímoteus Gunnarsson skoraði síðasta markið undir lok leiksins. Lokatölur 4-0 fyrir KA.

Nú hafa öll liðin í riðli 3 í A-deild Lengjubikarsins leikið einn leik. Afturelding, Fjölnir og KA eru með þrjú stig en KA fer á toppinn á markatölu. Valsmenn, HK og Fram eru án stiga.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×