Enski boltinn

De Bruyne: Jafn mikil pressa á City og Liverpool

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Belginn er kominn á fullt aftur eftir erfið meiðsli á fyrri hluta tímabilsins
Belginn er kominn á fullt aftur eftir erfið meiðsli á fyrri hluta tímabilsins vísir/getty
Kevin de Bruyne segir Liverpool og Manchester City vera með jafn mikla pressu á sér að vinna ensku úrvalsdeildina. Liðin eru í harðri baráttu um efsta sæti deildarinnar.

Tottenham komst upp fyrir Manchester City í annað sæti deildarinnar í gær, en þrátt fyrir það koma oftast aðeins nöfn Liverpool og Manchester City upp þegar toppbaráttan í Englandi er rædd. Liverpool er með 61 stig á toppnum og City með 56 stig í þriðja sætinu.

„Það er pressa á Liverpool því þeir hafa ekki unnið titilinn í 29 ár,“ sagði de Bruyne við Sky Sports.

„En við erum líka með pressu á okkur því við erum ríkjandi Englandsmeistarar og það búast allir við því að við séum í titilbaráttu. Ég er ekki viss um hvort liðið sé með meiri pressu á sér, en það er pressa á báðum liðum.“

Manchester City tapaði mjög óvænt fyrir Newcastle í vikunni en Liverpool náði ekki að nýta sér það til fulls því menn Jurgen Klopp gerðu jafntefli við Leicester á Anfield.

„Ég veit ekki hvort það hjálpar okkur að kunna að vinna deildina. Á síðasta ári vissu fæstir okkar hvernig væri að vinna, það getur gert mann hungraðari að hafa ekki unnið áður.“

„Við erum að reyna að gera það sama og við gerðum á síðastat ári. Við sjáum til hvernig þetta verður eftir tvo mánuði, ef munurinn er lítill verður þetta spennandi titilbarátta, annars ekki.“

Manchester City mætir Arsenal á Etihadvellinum í stórleik umferðarinnar í dag. Leikurinn hefst klukkan 16:30 og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×