Enski boltinn

Klopp: Okkar hlutverk er að uppfylla drauma

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Það er aldrei langt í gleðina hjá Klopp
Það er aldrei langt í gleðina hjá Klopp vísir/getty
Jurgen Klopp segir það hlutverk hans og leikmanna sinna að uppfylla drauma. Liverpool á góðan möguleika á því að verða Englandsmeistari í vor, í fyrsta skipti í 29 ár.

Liverpool er með tveggja stiga forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar en getur komið því aftur upp í fimm stig með sigri á West Ham í kvöld.

„Mig dreymir ekki mikið. Ég á mér þann draum að haldast heilbrigður þar til ég er 96, 97 ára, án allra sjúkdóma og með minnið í lagi,“ sagði Þjóðverjinn skrautlegi við Sky Sports.

„Mig dreymir um að vera með konunni minni og eignast barnabörn. Það er minn draumur. Mig dreymir ekki í vinnunni, ég er að vinna. Okkar starf er að uppfylla drauma annara, ekki okkar eigin.“

„Kannski dreymir strákana um að verða Englandsmeistari en ég er ekki mikill draumamaður.“

Liverpool-goðsögnin Kenny Dalglish stýrði Liverpool til síðasta Englandsmeistaratitils félagsins sem kom árið 1990, áður en enska úrvalsdeildinni varð að „Premier League.“

„Við erum afslappaðir, en ekki of slakir. Okkur stendur alls ekki á sama en við vitum að við þurfum að halda áfram að leggja okkur fram þar til í síðasta leiknum og þá sjáum við hvar við endum.“

„Þetta er tækifæri til þess að vinna og við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að enda eins hátt uppi í töflunni og við getum.“

Leikur Liverpool og West Ham hefst klukkan 20:00 í kvöld og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×