Erlent

Apple Watch sagt hafa bjargað lífi eldri manns í Noregi

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Getty
Snjallúr hins 67 ára gamla Torlav Østvang er talið hafa bjargað lífi hans um helgina. Þegar Torlav fór á klósettið aðfaranótt laugardags leið yfir hann og skall höfuð hans í gólfið. Apple Watch er hannað til að greina föll sem þessi og þegar Torlav hafði ekki hreyft sig í eina mínútu sendi snjallúrið neyðarskilaboð frá sér.

Um hálftíma síðar komu lögregluþjónar að Torlav þar sem hann lá blóðugur á gólfinu og hafði hann hlotið þrjú beinbrot á höfðinu. Hann man ekki eftir því hvað gerðist en dóttir hans, Kirsti, segir ljóst að snjallúrið hafi bjargað lífi hans.

Í samtali við NRK segir hún að þetta hefði geta farið mun verr. Fjölskylda Torlav hafi velt vöngum yfir því hvort hann hefði dáið ef hann hefði ekki verið með snjallúrið. Þá segir hún magnað hve fljótt hjálp hafi borist.



CNet bendir á að auk þess að vera búið skynjurum sem greina föll notenda er Apple Watch einnig útbúið púlsmæli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×